Í ljósi óvissunnar af hinu nýja afbrigði kórónuveirunnar og samhliða því að þótt ástandið sé orðið viðráðanlegt í dag hafi álagið á heilbrigðiskerfið verið langvarandi, verða sóttvarnaaðgerðir óbreyttar næstu tvær vikur. Þetta tilkynnti Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. „En við munum og bindum vonir við að við getum slakað til fyrr ef gögn benda okkur á að það sé óhætt,“ sagði Willum. Áframhaldandi aðgerðir eru í fullkomnu samræmi við minnisblað sóttvarnalæknis að sögn ráðherrans.
Reglugerð um takmörkun á samkomum sem sett var 12. nóvember fellur úr gildi á morgun, 8. desember. Er hún var sett var faraldurinn í mikilli uppsveiflu og á tímabilinu hafa tugir smita greinst á hverjum degi. Flest voru smitin yfir 200 þann 15. nóvember. Síðustu daga virðist sem bylgjan sé í rénun þrátt fyrir að enn séu að greinast um og yfir 100 smit á hverjum degi. Fimm liggja nú á gjörgæslu vegna COVID-19.
Fimmtíu mega koma saman en allt að 500 ef hraðpróf eru notuð. Opnunartími veitingastaða er og verður sem sagt áfram til kl. 22 og þurfa gestir að hafa yfirgefið staðinn kl. 23.
Willum segir að meðal þeirra gagna sem þarf nú að meta varða hið nýja afbrigði ómíkron. Meta þurfi t.d. hvernig afbrigðið virki gagnvart hraðgreiningarprófum og bólusetningum.
Ráðherrann segir að ólík sjónarmið hafi verið innan ríkisstjórnarinnar á fundinum í dag um hversu hratt ætti að slaka á aðgerðum, „en niðurstaðan var þessi og full samstaða í ríkisstjórninni að horfa svona á þetta.“
Á fundum var því m.a. velt upp að hans sögn hvort lengja ætti opnunartíma veitingastaða eða fara úr 50 manna fjöldatakmörkum í hundrað. „En maður þarf bara að hafa gögnin,“ segir Willum. „Það er ekki gott að taka svoleiðis ákvarðanir af því bara.“