Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra telur mikilvægt að Alþingi fjalli efnislega um tillögur verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar sem beðið hafa afgreiðslu þingsins í að verða fimm og hálft ár. Hann er fjórði ráðherrann sem mun leggja þingsályktunartillögu um flokkun virkjunarkosta í þriðja áfanga áætlunarinnar fram og í dag var tillagan birt á vef þingsins og er samkvæmt þingmálaskrá á dagskrá þess í lok mars.
Tillagan er nær samhljóða þeirri sem þegar hefur verið lögð fram í þrígang að því undanskildu að virkjanakostir og svæði í verndarflokki sem þegar hafa verið friðlýstir hafa verið felldir úr tillögunni. Allar voru friðlýsingarnar gerðar í tíð Guðmundar Inga Guðbrandssonar í stóli umhverfisráðherra og samkvæmt þeim verður ekkert af tíu áður fyrirhuguðum virkjunum: Hólmsárlóni, Tungnaárlóni, Gýgjarfossvirkjun, Bláfellsvirkjun, Gjástykki, Brennisteinsfjöll, Hverabotnum, Neðri-Hverdölum, Kisubotnum og Þverfelli.
Lagt er til að sautján nýir virkjanakostir fari í orkunýtingarflokk áætlunarinnar, sjö í vatnsafli og tíu í háhita. Þá eru 37 kostir í biðflokki tillögunnar, m.a. vegna þess að verkefnisstjórn taldi að á sínum tíma fylgdi þeim ekki nægjanleg gögn, og í verndarflokk er lagt til að sextán virkjanakostir fari og er þá búið að fella út þau svæði sem nú njóta friðlýsingar.
Núgildandi rammaáætlun, annar áfangi, var samþykktur á Alþingi í janúar árið 2013 eða fyrir níu árum síðan. Einn virkjanakostur til viðbótar hefur þó síðan þá bæst við í orkunýtingarflokk, Hvammsvirkjun sem Landsvirkjun áformar í neðri hluta Þjórsár og var það gert með sérstakri afgreiðslu þingsins árið 2015.
Tvær aðrar virkjanir í neðri hluta Þjórsár fengu svo meðferð verkefnisstjórnar þriðja áfangans, Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun, og eru í orkunýtingarflokki tillögunnar sem nú fer enn einu sinni fyrir þingið.
Auk þessara þriggja virkjanahugmynda í Þjórsá eru tvær aðrar frá Landsvirkjun í nýtingarflokki samkvæmt tillögunni: Skrokkölduvirkjun og Veituleið Blönduvirkjunar.
Skrokkölduvirkjun er áformuð á miðhálendinu og var rökstuðningur verkefnisstjórnar um að setja hana í nýtingaflokk sá að þar væri þegar búið að gera miðlunarlón (Hágöngulón), stíflur og tilraunaborholur og ekki því lengur um óraskað svæði að ræða. Þessi hugmynd féll þó ekki vel í kramið hjá þingmönnum Vinstri grænna er hún var fyrst lögð fram árið 2016 og aftur 2017. Katrín Jakobsdóttir, sem nú er orðin forsætisráðherra í ríkisstjórnarsamstarfi með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, sagðist vilja að Skrokkalda yrði „tekin út fyrir sviga“ á meðan áform um hálendisþjóðgarð væru til skoðunar.
Að auki eru tvær virkjanir á Vestfjörðum, Austurgilsvirkjun og Hvalárvirkjun, í orkunýtingarflokki tillögunnar, en sú seinni var þegar komin þangað í öðrum áfanga sem nú er í gildi. Það sama má segja um Veituleið Blönduvirkjunar.
Þeir háhitakostir sem eru í orkunýtingarflokki tillögunnar eru m.a. Austurengjar, Sveifluháls og Sandfell á Krýsuvíkursvæðinu, Eldvörp á Svartsengissvæðinu, frekari virkjun Kröflusvæðisins og Bjarnarflagsvirkjun.
Hægt er að færa virkjanakosti úr nýtingarflokki þar til Orkustofnun hefur gefið út virkjanaleyfi, rétt eins og hægt er að færa kosti úr verndarflokki ef þeir hafa ekki fengið friðlýsingu.
Vilja stækka biðflokkinn
Í verndarflokki tillögunnar sem Guðlaugur Þór mun leggja fram eru m.a. virkjanahugmyndir í Héraðsvötnum, Skjálfandafljóti, Markarfljóti og efst í Þjórsá (Kjalölduveita og Norðlingaölduveita). Þar er ennfremur Búlandsvirkjun í Skaftá. HS Orka sagði við Kjarnann nýverið að hún ætti fullt erindi i nýtingaflokk.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur frá því nóvember er að finna loforð um að lokið verði við þriðja áfanga rammaáætlunar en því er hins vegar bætt við í sömu setningu að kostum í biðflokki verði fjölgað. Slíkt getur aðeins þýtt tvennt: Að kostir verði færðir úr annað hvort verndarflokki eða nýtingarflokki við þinglega meðferð tillögunnar.