Guðveig Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar, segist hafa fullan skilning á því að fólk í Norðurárdal gagnrýni harðlega áform Qair Iceland um að reisa þar vindorkuver. Enginn vilji stórar framkvæmdir í sínu næsta nágrenni, hvorki vindmyllur né annað. Ekki standi hins vegar til að fara í skipulagsbreytingar vegna þessa vindorkuvers né annarra, að minnsta kosti á næstunni. „Við og væntanlega önnur sveitarfélög bíðum eftir því að ríkið móti einhverja rammaáætlun um nýtingu vindorku,“ segir hún við Kjarnann. „Frá okkar bæjardyrum séð er það grundvallarforsenda áður en við förum að ræða þessi mál eitthvað frekar.“
Vindorkuver í landi bæjarins Hvamms í Norðurárdal er aðeins eitt margra slíkra sem fyrirtækið Qair Iceland áformar. Nokkuð er síðan hugmyndin, sem kennd er við Múla, var viðruð fyrst og sendi Orkustofnun hana inn til umfjöllunar í 4. áfanga rammaáætlunar árið 2020. Verkefnisstjórnin tók þennan tiltekna kost hins vegar ekki til umfjöllunar þar sem hún taldi ekki nægjanleg gögn liggja fyrir.
Mat á umhverfisáhrifum vindorkuvers í Múla hófst fyrr á þessu ári er Skipulagsstofnun birti matsáætlun Qair um framkvæmdina. Stofnunin gaf svo í síðustu viku út álit sitt á áætluninni. Næsta skref í matsferlinu eru skil umhverfismatsskýrslu, sem Skipulagsstofnun mun auglýsa og óska eftir athugasemdum og umsögnum við áður en hún gefur út endanlegt álit sitt á framkvæmdinni.
Yfir sextíu manns sem búa eða eru með tengsl við Norðurárdal skiluðu athugasemdum við matsáætlunina, líkt og Kjarninn rakti ítarlega í fréttaskýringu um helgina. Allir eru á einu máli: Orkuver sem þetta eigi ekki heima í sveitinni. Um yrði að ræða tröllvaxið iðnaðarsvæði sem myndi spilla tignarlegri fjallasýn í friðsælli sveit. Áformin væru til marks um dómgreindarleysi og gróðafíkn fárra á kostnað einstakrar náttúru og mannlífs. Dalbúarnir lýsa yfir undrun, vonbrigðum og óhugnaði. Tala um yfirgang og ásælni. Segja stórslys vera í uppsiglingu.
Þorsteinn Narfason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, skrifaði í umsögn eftirlitsins að það komi á óvart hvað verkefnið virðist vera langt komið í ljósi þess að ekki liggi fyrir hvort framkvæmdin verði heimiluð.
Guðveig segir í samtali við Kjarnann að sér finnist umræðan um vindorkuver komin langt fram úr sér og að erfitt sé fyrir sveitarfélög að taka þátt í henni á meðan ríkið hafi ekki mótað stefnu.
Umræðan í fjölmiðlum er hins vegar vel skiljanleg þar sem fjöldi fyrirtækja hefur sett fram á ýmsum vettvangi áform sín um byggingu slíkra vera. Tvö eru t.d. þegar komin inn á aðalskipulag sveitarfélagsins Dalabyggðar og hugmyndir að 34 voru sendar til umfjöllunar í 4. áfanga rammaáætlunar. Vindorkufyrirtækin hafa sum hver haldið íbúafundi til að kynna áform sín. Hafa hafið mat á umhverfisáhrifum þeirra.
Guðveig segist skilja að vissu leyti að fyrirtækin séu farin af stað í þessa vinnu. Gera þurfi margar og tímafrekar rannsóknir þegar stórar framkvæmdir séu annars vegar. „Kannski eru þessir fjárfestar eins og aðrir að freista þess að nota tímann til að vinna sér í haginn.“
Ríkið verði að skapa rammann. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að mörkuð skuli stefna um uppbyggingu vindorkuvera á afmörkuðum svæðum og nýskipaður starfshópur á að fara ofan í kjölinn á þeim áætlunum og koma með tillögur. Annars myndi beiðnum um vindorkuver rigna yfir sveitarfélög, segir Guðveig, „og þetta yrði eins og villta vestrið og það væri byrjað að drita þessu niður út um allt“.
Þjóðin þarf að ræða málin
Áform um að minnsta kosti tvö önnur vindorkuver í Borgarbyggð hafa verið kynnt og eru þá líkt og áformin í Múla á ís hjá Borgarbyggð.
Guðveig segist hins vegar taka undir með ríkisstjórninni að fara þurfi í frekari orkuöflun ef stefna eigi að orkuskiptum. „En við sem þjóð þurfum að taka umræðuna um með hvaða hætti við ætlum að gera það.“