Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis vill gera töluverðar breytingar tillögu um þriðja áfanga rammaáætlunar, samkvæmt nefndaráliti og breytingartillögu sem afgreiddar voru á fundi nefndarinnar í gær.
Samkvæmt heimildum Kjarnans leggur meirihlutinn til að fjórir virkjunarkostir í Héraðsvötnum í Skagafirði og sömuleiðis Kjalölduveita í efri Þjórsá færist úr verndarflokki í biðflokk, auk þess sem vindorkuvinnsla í Búrfellslundi færist úr biðflokki yfir í nýtingarflokk.
Einnig er það vilji meirihluta nefndarinnar að ekki verði að gripið til friðlýsinga vegna virkjanakosta í verndarflokki í Skjálfandafljóti um sinn, að minnsta kosti ekki þar til búið verði að endurskoða lög um rammaáætlun.
Á móti kemur að meirihluti nefndarinnar vill færa Skrokköldu og einnig Holta- og Urriðafossvirkjanir í neðri hluta Þjórsár úr nýtingarflokki í biðflokk.
Nefndarálit bíður birtingar
Stjórnarflokkarnir hafa samkvæmt heimildum Kjarnans haldið málinu þétt að sér og það var ekki fyrr en undir miðnætti á miðvikudagskvöld að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í þingnefndinni fengu fyrst að líta á drög að nefndaráliti, þar sem lagt var upp með áðurnefndar breytingartillögur við þennan þriðja áfanga rammaáætlunar.
Þær voru svo samþykktar á fundi nefndarinnar í gær og koma til kasta Alþingis á allra síðustu þingdögunum, í næstu viku. Ekki er búið að birta nefndarálitið á vef þingsins.
Náttúruverndarsinnar telja tillögurnar mikið högg
Kjarninn veit til þess að afar mikil kurr er á meðal náttúruverndarsinna vegna þeirra breytinga sem lagt er upp með af hálfu meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar.
Viðmælendur Kjarnans telja að náttúruvernd á Íslandi verði fyrir afar þungu höggi ef hugmyndir meirihluta nefndarinnar verði niðurstaða Alþingis, og að faglegt ferli rammaáætlunar verði sömuleiðis sett í uppnám. Sáttin sem rammaáætlun hafi verið ætlað að skapa sé „endanlega rofin“ ef þetta verði niðurstaða þingsins. Gengið sé of langt í aðra áttina og jafnvægi á milli nýtingar og verndar verði raskað með þeim breytingum sem meirihluti nefndarinnar leggur til.
Einn viðmælandi segir að áratugalöng barátta náttúruunnenda fyrir varanlegri sátt um vernd Þjórsárvera og farvegar Þjórsár sé að engu gerð, verði nefndarálitið grunnur undir niðurstöðu Alþingis um þriðja áfanga rammaáætlunar.
Sami viðmælandi segir meirihluta nefndarinnar „handvelja“ rök sem styðji breytingar á hverjum virkjanakosti fyrir sig, og hundsa í því handvali vísindaleg gögn sem mæli með því að einstaka kostir verði settir í verndarflokk.
Óánægja er einnig með að Hvalárvirkjun á Ströndum og Austurgilsvirkjun í Ísafjarðardjúpi séu enn hafðar í nýtingarflokki, á meðan að þeir virkjanakostir sem meirihluti nefndarinnar leggur til að færist úr nýtingarflokki í biðflokk séu veigalitlir kostir eða ólíklegir til þess að verða nokkurntíma að veruleika – „innantómar dúsur“ – á meðan að Landsvirkjun fái allar sínar virkjanaóskir uppfylltar í tillögum meirihlutans.
Tveir stjórnarflokkanna voru með fyrirvara við málið
Í umræðum um þriðja áfanga rammaáætlunar eftir að Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra lagði þingsályktunartillögu sína um málið fram á Alþingi fyrr á árinu gerðu þingmenn bæði Vinstri grænna og Framsóknarflokks grein fyrir því að tillaga ráðherra hefði verið samþykkt með fyrirvörum af þingflokkum flokkanna beggja.
Orri Páll Jóhannsson þingflokksformaður Vinstri grænna og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd sagði frá því að fyrirvari flokksins væri svohljóðandi: „Þingflokkur Vinstri grænna leggur áherslu á mikilvægi vandaðrar málsmeðferðar af hendi Alþingis. Gætt verði jafnvægis milli verndar og nýtingar, rétt eins og tillaga verkefnisstjórnar byggir á. Sú faglega vinna sem endurspeglast í þeirri tillögu er mikilvægur grunnur að vinnu umhverfis- og samgöngunefndar. Í stjórnarsáttmála er fjallað um afgreiðslu málsins með þeim hætti að biðflokkurinn verði stækkaður, en við slíkt ferli leggur þingflokkurinn áherslu á að ofangreindu jafnvægi verði viðhaldið.“
Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður Framsóknarflokks, gerði svo grein fyrir fyrirvaranum sem þingflokkur Framsóknar samþykkti tillögu Guðlaugs Þórs: „Rammaáætlun er mikilvægt verkfæri við mat á virkjunarkostum. Gagnrýni hefur verið uppi um málsmeðferð 3. áfanga rammaáætlunar um að mat faghópa 3 og 4 hafi ekki verið hluti af matsferlinu. Þingflokkur Framsóknar vill beina því til umhverfis- og samgöngunefndar að horfa einnig til niðurstöður faghópanna. Þá hefur aðferðafræði afmörkunar landsvæða sem fara í verndarflokk verið gagnrýnd sem og réttaráhrif samþykktar ályktunarinnar þ.e. að friðlýsing fylgi óhjákvæmilega í kjölfar þess að virkjunarkostur fari í verndarflokk óháð náttúruverndargildi. Þingflokkur Framsóknar leggur áherslu á að hraða þarf orkuskiptum á öllum sviðum. Í vinnu umhverfis- og samgöngunefndar með málið verði í ljósi framangreinds skoðað hvort fjölga megi virkjunarkostum í biðflokki og/eða breyta afmörkun virkjunarkosta í verndarflokki. Þá er lögð rík áhersla á að í kjölfar afgreiðslu þingsins verði lög nr. 48 frá 2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, endurskoðuð í ljósi reynslunnar af vinnslu 3. áfanga rammaáætlunar,“ sagði í fyrirvara Framsóknar um málið.
Fréttin var uppfærð nokkrum mínútum eftir að hún birtist: Upphaflega stóð fyrir misgáning í undirfyrirsögn að til stæði að færa Kjalölduveitu og kostir í Héraðsvötnum hefðu verið færðir úr biðflokki í nýtingarflokk. Hið rétta er að kostirnir hafa verið í verndarflokki, og lagt er til að þeir færist í biðflokk.