Flestar hlutabréfavísitölur á heimsmörkuðum hafa lækkað í dag, og hafa því sést rauðar tölur víðast hvar. Í Bandaríkjunum hefur S&P 500 vísitalan, Nasdaq og Dow allar lækkað, um tæplega eitt prósent. Í Evrópu hefur lækkunin verið mun meiri. FTSE 100 vísitalan breska hefur lækkað um 1,4 prósent, CAC 40 í Frakklandi um 3,4 prósent og DAX í Þýskalandi um 3,23 prósent.
Ástæðurnar fyrir þessu rauðu tölum lækkunar eru sagðar vera áhyggjur af stöðu mála í Kína, en stjórnvöld þar í landi, í samstarfi við Seðlabanka Kína, hafa tvo daga í röð beitt sér fyrir lækkun á gengi kínversja júansis með það að markmiðið að örva útflutningshluta hagkerfisins.
Áhyggjurnar eru þó mun víðtækari, ef marka má skrif helstu fjölmiðla sem fjalla um efnahagsmál í dag. Þær snúa að því að kínverska hagkerfið gæti verið fallvalt, og að hrunið á hlutabréfamarkaðnum í landinu, lækkun gengisins og erfiðleikar á hrávörumörkuðum, séu aðeins upphafið. Frekari erfiðleikar geti haft mikil áhrif á gang mála um allan heim, ekki síst hjá þjóðum sem hafa vaxið hratt með sölu á hrávörum til Kína og Asíu.
China intervenes to support tumbling Yuan http://t.co/pLjXQCUQzx (Pic: AP) pic.twitter.com/NSJXXFnYqq
— The Australian (@australian) August 12, 2015
Í New York Times er því haldið fram að þrátt fyrir að hagtölur sýni að markmið um sjö prósent hagvöxt muni nást, þá sé margt sem bendi til þess að brestir í hagkerfinu séu að komast upp á yfirborðið.
Í umfjölliun BBC er farið yfir mögulega sigurvegara og tapara gengisfellingarinnar. Þeir sem eru sagðir munu hagnast eru meðal annars kínverskir útflutningsaðilar og ferðamenn á leið til Kína. Veikara júan mun aftur á móti hækka kostnað margra kínverskra fyrirtækja í formi hærri vaxta á erlendum skuldum, ekki síst hjá fjármálafyrirtækjum, auk þess sem flutningsaðilar á borð við flugfélög og skipafélög munu tapa vegna dýrari kaupa á olíu í dollurum.