Í dag er það enn svo á Íslandi að allir sem verða útsettir fyrir mögulegu COVID-19 smiti úti í samfélaginu þurfa að fara í sóttkví. Þetta á við um fullbólusetta jafnt sem aðra, en það gæti mögulega breyst á næstunni.
„Okkar núverandi reglur varðandi þetta eru í endurskoðun,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans um þetta efni, en á undanförnum vikum hafa reglur hvað varða sóttkví fullbólusettra sem teljast hafa orðið útsettir fyrir veirunni verið að breytast í nokkrum af okkar nágrannalöndum.
Strax í upphafi þessa mánaðar var reglunum til dæmis breytt í Noregi og þar þurfa þeir sem eru fullbólusettir og hafa verið það í ákveðið langan tíma ekki lengur að fara í sóttkví, ef þeir til dæmis sitja á veitingastað til borðs með einhverjum kunningja sem síðan reynist smitaður af veirunni.
Tilmælin í Bandaríkjunum eru þannig, samkvæmt smitsjúkdómastofnuninni CDC, að fullbólusettir sem hafa umgengist einhvern sem greinist svo með COVID-19 þurfa ekki að fara í sóttkví eða undirgangast skimun nema einkenni komi upp. Þó segir stofnunin að fullbólusettir sem búi eða starfi í stofnunum á borð við fangelsi eða athvörf fyrir heimilislausa ættu að fara í skimun, verði þeir útsettir fyrir smiti.
Þar í landi er verið að nota bóluefnin frá Pfizer/BioNTech, Moderna og Janssen (Johnson & Johnson). Samkvæmt því sem CDC segir telst fólk vera fullbólusett tveimur vikum eftir að það fær seinni skammtinn af Pfizer og Moderna eða þann eina skammt sem gefinn er af Janssen-bóluefninu.
Sóttkvíarreglurnar eru sem áður segir til endurskoðunar hérlendis. Við þá endurskoðun er væntanlega verið að horfa til reynslunnar af skimun bólusettra á landamærunum, sem hefur staðið yfir undanfarna mánuði.
Dæmi eru nefnilega um að bólusettir geti borið veiruna með sér og smitað út frá sér, eins og átti sér stað hjá íslenska Eurovision-hópnum úti í Hollandi á dögunum. Alls þrír úr íslenska teyminu, sem var bólusett með Janssen-bóluefninu fyrir brottför til Hollands, hafa greinst með veiruna.
Enginn greinarmunur gerður á tíma frá sprautu á landamærunum
Misjafnt er hvernig lönd gefa út vottorð vegna bólusetninga. Hér á Íslandi er ekki hægt að sækja um bólusetningarvottorð fyrr en viku eftir að fólk fær seinni sprautuna — eða einu sprautuna í tilfelli Janssen-bóluefnisins.
Þetta er ekki svona alls staðar, en sum ríki gefa út vottorð um fulla bólusetningu um leið og fólk hefur fengið sinn seinni eða eina skammt í upphandlegginn. Þá getur fólk um leið rokið af stað í alþjóðleg ferðalög, meðal annars til Íslands, án þess að þurfa að undirgangast sóttkví á áfangastað.
Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir við Kjarnann að allir sem til landsins koma og eru með bólusetningarvottorð lúti sömu skilyrðum, óháð því hvort fimm vikur séu liðnar frá seinni sprautu eða þrír dagar.
„Þú þarft bara vottorðið, það skiptir ekki máli hvenær það er,“ segir Hjördís, og bætir við að það væri nær ómögulegt í framkvæmd að fara að gera sérstaka kröfu um að ákveðið langt sé liðið frá bólusetningu fólks áður en það kemur hingað til lands.
Hjördís segir að allir séu að fóta sig í nýjum veruleika, hvað þetta varðar. Hún búist við því að við endurskoðun reglna um sóttkví hér innanlands verði horft til þeirra gagna sem safnast hafi saman og rannsókna sem hafa verið gerðar á því hvort fullbólusettir séu líklegir til að geta smitað út frá sér og ákvarðanir teknar út frá því.