Greiningarfyrirtækið Reitun sá sér ekki annað fært er að bregðast við þeirri umræðu sem var í tengslum við fyrrverandi formann stjórnar Festi, Þórð Má Jóhannesson, og lét fyrirtækið viðskiptavini sína vita um það í trúnaði. Það dró hins vegar áhyggjur sínar til baka eftir að stjórn Festi sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hún greindi frá því að hún hygðist endurskoða starfsreglur sínar.
Þetta kemur fram í svari Reitunar við fyrirspurn Kjarnans en miðillinn fékk ábendingu um það að fyrirtækið hefði gert athugasemd við félagið Festi, þ.e. að möguleg endurskoðun á einkunn til lækkunar væri í skoðun í kjölfar ásakana í garð fyrrum stjórnarformanns félagsins.
Reitun vinnur svokölluð UFS möt, sem gera grein fyrir hvernig fyrirtæki standa frammi fyrir áhættum sem snúa að umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum, á skráðum útgefendum hlutabréfa og skuldabréfa í Kauphöllinni fyrir fjárfesta. Hluti af samningi er jafnframt að vakta einkunn og láta vita ef einhverjir þættir gætu haft teljandi áhrif á hana. Þessi vinna er unnin í trúnaði milli Reitunar og viðskiptavinar, að því er fram kemur í svari fyrirtækisins.
Þá segir enn fremur í svarinu að Reitun sendi út nokkuð reglulega uppfærslur á UFS mötum sínum eða láti vita ef eitthvað sé að gerast hjá viðkomandi útgefanda sem geti breytt einkunn. Hingað til hafi þessir þættir fyrst og fremst snúið að stjórnarþáttum og félagsþáttum. Orðsporsáhætta og ímyndaráhætta ásamt áhættu tengt viðskiptatengslum vegi þar oftast þyngst.
„Reitun sá sér ekki annað fært en að bregðast við þeirri umræðu sem verið hefur í tengslum við fyrrverandi stjórnarformann Festis og lét sína viðskiptavini vita um það í trúnaði. Það var metið svo að ef umræðan þróaðist áfram án þess að félagið myndi bregðast við að þá gæti það haft áhrif á þá áhættuþætti sem nefndir voru,“ segir í svarinu.
Stjórn Festi athafðist ekki fyrr en konan fór í viðtal
Mikið fjaðrafok var í kringum Festi í síðustu viku þegar kona kom fram í hlaðvarpsþættinum Eigin konur og greindi frá meintu kynferðisbroti þriggja manna í sumarbústað árið 2020. Einn þessara manna var formaður stjórnar Festi, Þórður Már. Stjórnin vissi af ásökununum í nokkurn tíma en aðhafðist ekki fyrr en málið komst í hámæli í síðustu viku.
Þórður Már óskaði eftir því á stjórnarfundi á fimmtudaginn í síðustu viku að láta af störfum. „Stjórn féllst á erindið. Í kjölfarið skipti stjórn með sér verkum upp á nýtt. Guðjón Reynisson var kjörinn nýr formaður stjórnar og Margrét Guðmundsdóttir varaformaður,“ sagði í tilkynningu frá Festi á fimmtudaginn í síðustu viku.
Drógu fyrri áhyggjur um aukna áhættu til baka
Festi sendi frá sér tilkynningu til Kauphallar í gær en í henni var greint frá því að það væri mat stjórnar fyrirtækisins að þörf væri á því að endurskoða starfsreglur stjórnar.
„Að fenginni þessari reynslu er það mat stjórnar Festi að þörf sé á að endurskoða starfsreglur stjórnar. Markmið þeirrar endurskoðunar er að bæta reglur og gera vinnulag skýrara ef fram koma upplýsingar sem benda til mögulegs vanhæfis stjórnarmanna og hefur stjórn ákveðið að hefja þá vinnu strax. Festi er með skýrar reglur fyrir alla stjórnendur og starfsmenn félagsins og dótturfélaga sem verða lagðar til grundvallar við endurskoðun á starfsreglum stjórnar. Það er markmið og vilji stjórnar Festi að vera ætíð til fyrirmyndar um góða stjórnarhætti og mun niðurstaða endurskoðunar á starfsreglum stjórnar verða kynntar á aðalfundi 22. mars n.k.
Stjórn Festi fordæmir allt ofbeldi og telur mikilvægt að hlustað sé á þolendur. Það er skylda okkar að breytast með samfélaginu og í sameiningu eigum við að búa til öruggara umhverfi fyrir okkur öll,“ sagði enn fremur í tilkynningu Festi í gær.
Í svari Reitunar til Kjarnans kemur fram að eftir að Festi gaf út tilkynninguna í gær, þar sem skýrt hafi verið af hverju félagið hefði ekki brugðist fyrr við og hvernig það ætlaði að breyta vinnulagi og heimildum í framhaldinu, þá hafi Reitun látið sína viðskiptavini vita í trúnaði um það og dregið fyrri áhyggjur um aukna áhættu til baka.