Reykjavíkurborg styður að almenn hraðamörk í þéttbýli verði færð niður í 30 kílómetra á klukkustund, nema aðstæður mæli með hærri hraða. Þetta kemur fram í umsögn borgarinnar við frumvarp Andrésar Inga Jónssonar þingmanns Pírata til breytinga á umferðalögum.
Frumvarpið felur í sér að almenn hraðamörk innan þéttbýlis verði færð úr 50 kílómetra hraða niður í 30 kílómetra hraða á klukkustund. Reykjavíkurborg telur að þessi breyting falli „vel að þeim markmiðum og áherslum sem Reykjavíkurborg hefur sett sér í umferðaröryggismálum, umhverfismálum og notkun mismunandi fararmáta.“
„Ekki er ljóst hvenær eða hvers vegna valið var að setja almenn hraðamörk sem 50 km/klst., en þannig hafa þau verið a.m.k. frá árinu 1968. Þau hraðamörk taka ekki mið af kunnáttu, rannsóknum, og þróun sem hefur átt sér stað síðustu áratugi m.t.t. fjölda og alvarleika umferðaróhappa innan borga,“ segir í umsögn borgarinnar sem send hefur verið til Alþingis og undirrituð er af Þorsteini R. Hermannssyni samgöngustjóra.
Í umsögninni segir að almenn hraðamörk upp á 50 km/klst leiði til þess að hraðamörk séu oft og tíðum of há innan þéttbýlis og samþykki þurfi og auglýsa sérstaklega að lækka hraðamörkin út frá umferðaröryggissjónarmiðum á stórum hluta gatnakerfisins.
Yrði frumvarp Andrésar Inga að lögum myndi þetta í reynd snúast við og auglýsa þyrfti og samþykkja sérstaklega umferðarhraða yfir 30 kílómetrum á klukkustund innan þéttbýlis. Í umsögn borgarinnar segir að um 60 prósent af gatnakerfinu sé nú með 30 kílómetra hámarkshraða eða lægri og geri megi ráð fyrir að það hlutfall hækki til framtíðar.
„Afleiðingar umferðaróhapps þar sem ekið er á gangandi eða hjólandi vegafarenda á 50 km/klst. eru mun meiri en ef hraðinn er nærri 30 km/klst. Æskilegt má telja að almennur grunnhraði sé ákvarðaður út frá því hvaða hraða vegfarendur á ferð um meirihluta gatnakerfisins þola án þess að eiga á hættu að slasast alvarlega, en að velja megi hærri hraða þar sem það er talið ásættanlegt út frá umferðaröryggi,“ segir í umsögn borgarinnar.
Þar segir einnig að lagabreytingartillagan falli vel að markmiðum á landsvísu sem finna má í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda 2020-2034, sérstaklega undirmarkmiðum sem miði að öryggi barna í umferðinni og öryggi óvarðra vegfarenda.