Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hefur verið aflýst og mun það því ekki fara fram 18. september eins og áður hafði verið tilkynnt. Þetta kemur fram í tilkynningu Íþróttabandalags Reykjavíkur til þátttakenda í dag.
„Á síðustu vikum og mánuðum hefur Íþróttabandalag Reykjavíkur leitað allra leiða til að halda Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2021 í miðjum heimsfaraldri. Ákveðið var að fresta hlaupinu fyrst um sinn, með von um að ástandið myndi breytast til hins betra á næstu vikum, en það virðist ekki stefna í nægar tilslakanir fyrir svona stóran viðburð. Við reyndum allt sem við gátum, en sjáum því miður ekki möguleika á að halda hlaupið, ástæðurnar eru margar og ólíkar, sú stærsta er þó fjöldatakmarkanir,“ segir í tilkynningu.
Aðstandendur hlaupsins segja að álagið á samfélagið, sem og heilbrigðiskerfið hafi verið mikið og að mikil óvissa sé ennþá um framhaldið. „Eftir samtöl við heilbrigðisráðuneytið, Almannavarnir, lögregluna, slökkviliðið, Reykjavíkurborg og skóla- og íþróttasamfélagið þá viljum við ekki taka þá áhættu að valda auknu álagi á þessa aðila með því að halda hlaupið í ár,“ segir í tilkynningunni.
Endurgreitt með gjafabréfi
Þúsundir þátttakenda hugðust hlaupa Reykjavíkurmaraþonið, sem upphaflega átti að fara fram 21. ágúst eða næstkomandi laugardag. Þar á meðal voru um tvöþúsund erlendir hlauparar sem ætluðu að leggja leið sína til landsins til þess að taka þátt.
Þátttakendum verður endurgreitt með gjafabréfi, sem hægt verður að nota í viðburði ÍBR næsta árið, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningunni til hlaupara.