„Við erum að reyna að finna leiðir hvernig við komum þessu fólki hingað. Fólk er náttúrulega víðsvegar um Afganistan og það er ekki auðvelt að komast þaðan. Við þurfum að reyna að koma okkur inn í loftbrú sem allavega Danir eru með og fleiri ríki.“ Þetta segir Stefán Vagn Stefánsson formaður flóttamannanefndar í samtali við Kjarnann en ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögur nefndarinnar um að taka á móti allt að 120 manns frá Afganistan.
Að mörgu er að huga, að sögn Stefáns Vagns. Til að mynda þurfi að finna leiðir til að koma fólkinu sem um ræðir til Kabúl, ekki sé nóg að huga einungis að fluginu þaðan. „Þetta eru meðal annars verkefnin sem við erum í núna í þessum töluðu orðum.“
Full samstaða meðal nefndarmanna
Samkvæmt tillögum nefndarinnar á í fyrsta lagi að taka á móti starfsfólki sem vann með og fyrir Atlantshafsbandalagið, ásamt mökum þeirra og börnum. Horft verður sérstaklega til þeirra sem störfuðu með íslensku friðargæslunni.
Í öðru lagi verður fyrrverandi nemendum frá Afganistan við jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, ásamt mökum og börnum, boðið til landsins. Í þriðja lagi munu íslensk stjórnvöld aðstoða þá Afgana sem eiga rétt á fjölskyldusameiningu eða eru komnir nú þegar með dvalarleyfi hér á landi en geta ekki ferðast á eigin vegum að komast til landsins. Um er að ræða einstaklinga sem hafa fjölskyldutengsl hér, sem og einstaklinga sem hyggjast hefja hér nám.
Í fjórða lagi verða umsóknir um fjölskyldusameiningu, samkvæmt lögum um útlendinga, við Afgana búsetta hér landi settar í forgang og aukið við fjárveitingar til þess að hraða umsóknunum.
Stefán Vagn segir að full samstaða hafi verið meðal nefndarmanna um tillögur að aðgerðum. Í flóttamannanefnd sitja fulltrúar félags- og barnamálaráðherra, dómsmálaráðherra og utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Auk þess sitja áheyrnarfulltrúar frá Rauða krossinum á Íslandi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Útlendingastofnun fundi nefndarinnar.
Skipa starfshóp til að útfæra tillögurnar
Stefán Vagn segir í samtali við Kjarnann að tíminn sé enginn. „Nefndin vinnur þetta eins hratt og hægt er. Það eru allir að leggjast á eitt að svo verði.“
Hann greinir frá því að sérstakur starfshópur hafi verið skipaður sem mun hafa það hlutverk að finna frekari útfærslur á tillögum nefndarinnar. „Auðvitað erum við líka byrjuð á því. Bæði við og Útlendingastofnun, félagsmálaráðuneytið og borgaraþjónustan, utanríkisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Það eru allir á fullu að reyna að finna leiðir og átta sig á því hvernig við klárum þetta verkefni.“