Ríkisendurskoðun afhendir ekki endurskoðunaráætlun sína vegna yfirstandandi úttektar á útboði og sölu á hlut í Íslandsbanka. Kjarninn falaðist eftir því að fá áætlunina í kjölfar þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var gerð grein fyrir því við hvað úttektin mun afmarkast.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans segir starfandi ríkisendurskoðandi, Guðmundur Björgvin Helgason, að um vinnuskjal sé að ræða og samkvæmt ákvæði laga um ríkisendurskoðanda geti slík gögn – skýrslur greinargerðir og önnur gögn – fyrst orðið aðgengileg þegar Alþingi hefur fengið þau afhent. Í ákvæðinu stendur líka: „ Ríkisendurskoðandi getur enn fremur ákveðið að gögn sem hafa verið send stjórnvöldum við undirbúning einstakra athugana og meðan á þeim stendur verði ekki aðgengileg.“
Fjármála- og efnahagsráðuneytið óskaði eftir því skriflega þann 7. apríl að Ríkisendurskoðun myndi gera úttekt á því hvort hvort útboð og sala ríkisins á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka sem fram fór þann 22. mars síðastliðinn hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum.
Í bréfi ráðuneytisins kom fram að umræða hafi skapast um hvort framkvæmd sölunnar hafi verið í samræmi við áskilnað laga og upplegg stjórnvalda sem borið var undir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til umsagnar.
Ríkisendurskoðun ákvað daginn eftir, þann 8. apríl, að verða við beiðninni. Í bréfi sem hún sendi til Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna þess sagði að „áætlun um afmörkun og framkvæmd úttektarinnar hefur ekki farið fram en hún mun verða endurskoðuð eftir því sem úttektinni vindur fram. Í því sambandi er ítrekað að skv. 3. mgr. 1. gr. framangreindra laga er ríkisendurskoðandi sjálfstæður og engum háður í störfum sínum og ákveður sjálfur hvernig hann sinnir hlutverki sínu samkvæmt lögunum. Stefnt er að því að niðurstaða úttektarinnar verði birt í opinberri skýrslu til Alþingis í júnímánuði 2022.“
Gert ráð fyrir niðurstöðu í lok júní
Vísir greindi frá því fyrr í þessum mánuði að gert sé ráð fyrir að niðurstöður úttektarinnar verði kynntar í lok júnímánaðar. Starfslok Alþingis eru áætlun 10. júní samkvæmt starfsáætlun þingsins. Þó má búast við að þing verði kallað saman til að ræða niðurstöðu úttektarinnar.
Þá taldi lögmannsstofan að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslunnar til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu í lagalegu tilliti og að ákvörðun hennar um að selja ekki hlut til Landsbankans og Kviku banka, sem gerðu tilboð fyrir hönd veltubóka sinna, hafi stuðst við málefnaleg sjónarmið og hafi einnig verið í samræmi við jafnræðisreglu.
LOGOS var ráðið sem innlendur lögfræðilegur ráðgjafi Bankasýslunnar í tengslum við sölumeðferðina á hlutnum í Íslandsbanka 18. febrúar síðastliðinn, en hluturinn í bankanum var seldur með tilboðsfyrirkomulagi þann 22. mars. Minnisblað hennar fjallar því um lögmæti sölumeðferðar sem stofan vann sjálf að.
Þorri almennings vildi rannsóknarnefnd
Hluti stjórnarandstöðunnar taldi ekki nægilega langt gengið að láta Ríkisendurskoðun framkvæma úttekt á bankasölunni og vildu að rannsóknarnefnd þingsins yrði skipuð til að rannsaka málið.
Í könnun sem Gallup lét gera, og var birt í lok apríl, kom fram að 87,2 prósent landsmanna teldu að illa hefði verið staðið að útboði og sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Alls 73,6 prósent sögðu að það ætti að skipa rannsóknarnefnd en 26,4 prósent töldu nægjanlegt að Ríkisendurskoðun geri úttekt á sölunni. Kjósendur Sjálfstæðisflokks skáru sig úr hvað þetta varðar, en 74 prósent þeirra voru á því að úttekt Ríkisendurskoðunar nægði. Aðspurð hvort óeðlilegir viðskiptahættir hafi verið viðhafðir við söluna sögðu 88,4 prósent svarenda svo vera og 68,3 prósent töldu að söluferlið hafi falið í sér lögbrot.
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands er einnig með söluferlið til skoðunar.