Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla síðustu daga um að annarleg sjónarmið hafi ráðið för við úttektarvinnu embættisins á söluferlinu á Íslandsbanka.
Stofnunin segir skýrslu sína um ferlið standa óhaggaða þrátt fyrir greinargerð sem Bankasýsla ríkisins birti á vef sínum 16. nóvember síðastliðinn, en þar hafnaði Bankasýslan gagnrýni sem Ríkisendurskoðun hefur sett fram á undirbúning og framkvæmd á sölu á hlut í Íslandsbanka. Hún taldi auk þess Ríkisendurskoðun „afhjúpa takmarkaða þekkingu“ á málefninu sem var til rannsóknar.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu á vef Ríkisendurskoðunar. Sennilegast verður að teljast að Ríkisendurskoðun sé þar að vísa í umfjöllun Morgunblaðsins, Viðskiptablaðsins og Innherja, undirvefs Vísis sem fjallar um efnahagsmál og viðskipti, um skýrslu Ríkisendurskoðunar.
Í tilkynningunni segir að fullyrt hafi verið í ákveðnum fjölmiðlum að umfjöllun Ríkisendurskoðunar um tilboðabók söluferlisins byggi á misskilningi embættisins. Það hefur meðal annars verið gert í nýlegum pistli Harðar Ægissonar, ritstjóra Innherja.
Í Morgunblaðinu hefur verið lögð áhersla á umfjöllun um leka á skýrslu Ríkisendurskoðunar tæpum sólarhring áður en skýrslan átti að birtast. Þá hefur blaðið, ásamt Viðskiptablaðinu, gert tortryggilegt að Ríkisendurskoðun hafi ráðið Jón Þór Sturluson, forseta viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, sem ráðgjafa við úttekt stofnunarinnar á söluferlinu með því að benda á að Jón Þór hafi starfað fyrir Samfylkinguna, meðal annars sem aðstoðarmaður ráðherra, fyrir mörgum árum síðan.
Skýrslan stendur óhögguð
Í tilkynningunni segir að við vinnslu og í umsagnarferli skýrslu Ríkisendurskoðunar hafi upplýsingar og athugasemdir sem fram komu af hálfu Bankasýslu ríkisins verið hafðar til hliðsjónar og tekið tillit til atriða sem embættinu þótti eiga rétt á sér og vörðuðu efni skýrslunnar og afmörkun hennar.
Skýrslan standi óhögguð þrátt fyrir þá greinargerð sem Bankasýslan birti 16. nóvember sl. og þær athugasemdir sem stofnunin hefur kosið að gera að umfjöllunarefni eftir birtingu hennar. „Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis með fjármála- og efnahagsráðuneyti í gær svaraði fjármála- og efnahagsráðherra aðspurður að samskipti við Ríkisendurskoðun í úttektarferlinu hefðu verið fagmannleg og að engin ástæða sé að hans mati til að draga í efa hæfni eða færni Ríkisendurskoðunar til að fjalla um málið.“
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem birt var í byrjun síðustu viku, var söluferlið á Íslandsbanka gagnrýnt harkalega. Stofnunin sagði fjölþætta annmarka hafa verið á sölunni. Í niðurstöðu hennar sagði að standa hefði átt betur að sölunni og hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlutinn í bankanum. Ákveðið var að selja á undirverði til að ná fram öðrum markmiðum en lögbundnum. Huglægt mat hafi ráðið því hvernig fjárfestar voru flokkaðir og orðsporsáhætta af söluferlinu var vanmetin.