Ríkissaksóknari mun ekki áfrýja dómi héraðsdóms í máli ákæruvaldsins á hendur Marek Moszczynki. Þetta kemur fram í svari embættisins við fyrirspurn Kjarnans.
Marek var sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins fyrir brennu, tilraun til manndráps og þrefalt manndráp síðastliðinn fimmtudag. Hann var metinn ósakhæfur og gert að sæta vistun á viðeigandi réttargæslustofnun. Þetta var í fyrsta skipti sem maður er ákærður fyrir að bana þremur en tvær konur og einn karlmaður létust í eldsvoðanum á Bræðraborgarstíg 1 síðasta sumar.
Ákærða var gert að greiða fyrrverandi íbúum á Bræðraborgarstíg bætur, sem nema allt frá 500 þúsund krónum upp í 11 milljónir. Allur sakarkostnaður verður greiddur upp úr ríkissjóði.
Hafið yfir skynsamlegan vafa að nokkur annar hafi getað verið valdur að brunanum
Í dómnum segir að ákærði hafi „verið fundinn sekur um mjög alvarleg brot sem höfðu hrikalegar afleiðingar“. Þá sé hafið yfir skynsamlegan vafa að nokkur annar en ákærði hafi getað verið valdur að brunanum.
Jafnframt kemur fram að útilokað sé að segja fyrir um það með vissu hvernig andlegri heilsu ákærða verði háttað til framtíðar. „Það liggur því fyrir að nauðsynlegt er að fylgjast náið með geðrænu ástandi hans, meta einkenni hans og þróun þeirra, stilla af lyfjameðferð og gera áhættumat. Telur dómurinn, sem skipaður er sérfróðum meðdómsmanni, að nauðsynlegt sé vegna réttaröryggis að ákærði sæti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Þá þykir rétt að á þeim tíma gangist ákærði undir viðeigandi meðferð vegna veikinda sinna.“
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sagði við blaðamenn eftir dómsuppkvaðningu í síðustu viku að niðurstaðan kæmi henni ekki á óvart.