Ríkissaksóknari mun ekki áfrýja dómi héraðsdóms í máli ákæruvaldsins á hendur Marek Moszczynki. Þetta kemur fram í svari embættisins við fyrirspurn Kjarnans.
Marek var sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins fyrir brennu, tilraun til manndráps og þrefalt manndráp síðastliðinn fimmtudag. Hann var metinn ósakhæfur og gert að sæta vistun á viðeigandi réttargæslustofnun. Þetta var í fyrsta skipti sem maður er ákærður fyrir að bana þremur en tvær konur og einn karlmaður létust í eldsvoðanum á Bræðraborgarstíg 1 síðasta sumar.
Ákærða var gert að greiða fyrrverandi íbúum á Bræðraborgarstíg bætur, sem nema allt frá 500 þúsund krónum upp í 11 milljónir. Allur sakarkostnaður verður greiddur upp úr ríkissjóði.
Hafið yfir skynsamlegan vafa að nokkur annar hafi getað verið valdur að brunanum
Í dómnum segir að ákærði hafi „verið fundinn sekur um mjög alvarleg brot sem höfðu hrikalegar afleiðingar“. Þá sé hafið yfir skynsamlegan vafa að nokkur annar en ákærði hafi getað verið valdur að brunanum.
Lesa
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sagði við blaðamenn eftir dómsuppkvaðningu í síðustu viku að niðurstaðan kæmi henni ekki á óvart.