Samkvæmt tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu í dag er áætlað að framkvæmd hraðprófa verði komin á fullt skrið um miðjan septembermánuð og að prófin verði gjaldfrjáls fyrir notendur, sem þýðir að sá kostnaður sem fellur til þeirra vegna verði greiddur úr ríkissjóði.
Ráðuneytið undirbýr nú að leita samninga um framkvæmd hraðprófanna, sem eiga að gera það mögulegt að allt að 500 manns verði í sama sóttvarnahólfi á stærri viðburðum.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að fundað hafi verið með hagsmunaaðilum sem standa fyrir stórum viðburðum um frekari útfærslu og að ákvörðunin hafi verið tekin um að á viðburðum þar se hraðpróf eru nýtt verði fólki heimilt að taka niður grímu þegar það situr.
Einnig verður börnum á leik- og grunnskólaaldri heimilt að mæta á slíka viðburði án þess að krafist sé niðurstöðu úr hraðprófi.
Grímuskylda afnumin á viðburðum utandyra
Í tilkynningu ráðuneytisins eru einnig kynntar frekari tilslakanir á sóttvarnaráðstöfunum, sem taka eiga gildi á miðnætti. Grímuskylda á íþróttaviðburðum utandyra verður afnumin og gildi þá einu hvort hægt sé að tryggja eins metra fjarlægð á milli sitjandi áhorfenda eða ekki.
Athygli vakti fyrir rúmri viku er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var grímulaus á KR-vellinum að horfa á leik heimakvenna gegn Víkingi í Lengjudeild kvenna.
Katrín sagði við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund daginn eftir að hún hefði talið að á leik utandyra, þar sem fjarlægð á milli fólks væri tryggð, þyrfti ekki að bera grímu. Forsætisráðherra sagði að henni þætti leiðinlegt að hafa brotið reglurnar með þessum hætti.