Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og innleitt verði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. „Þar verður lögð áhersla á ríkari aðkomu Alþingis og að styrkari stoðum verði skotið undir að tryggja gagnsæi, jafnræði, lýðræðislega aðkomu þingsins og upplýsingagjöf til almennings. Frumvarp þessa efnis verður lagt fyrir Alþingi svo fljótt sem auðið er.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu sem birt var á vef Stjórnarráðs Íslands í morgun vegna sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.
Í yfirlýsingunni segir að formenn stjórnarflokkanna þriggja, þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson,. fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, séu sammála um framkvæmd sölunnar á 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka þann 22. mars hafi ekki staðið „að öllu leyti undir væntingum stjórnvalda, m.a. um gagnsæi og skýra upplýsingagjöf.“ Þá var hluturinn seldur í lokuðu útboði með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi til 207 fjárfesta með 2,25 milljarða króna afslætti frá markaðsverði.
Í yfirlýsingunni segir að upp hafi komið spurningar, álitamál og gagnrýni um framkvæmd sölunnar sem fór fram sem nauðsynlegt sé að rannsaka og upplýsa almenning um. „Ríkisendurskoðun hefur þegar hafið úttekt á því hvort salan hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Þá hefur fjármálaeftirlit Seðlabankans hafið rannsókn á tilteknum þáttum tengdum sölunni. Komi fram þörf fyrir frekari rannsóknir þegar niðurstöður Ríkisendurskoðunar og Seðlabankans liggja fyrir muni ríkisstjórnin beita sér fyrir slíku á vettvangi Alþingis.“
Þeir annmarkar sem í ljós hafi komið við undirbúning og framkvæmd sölu á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafi leitt í ljós þörfina fyrir endurskoðun á lagaumgjörð og stofnanafyrirkomulagi. „Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og innleitt verði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þar verður lögð áhersla á ríkari aðkomu Alþingis og að styrkari stoðum verði skotið undir að tryggja gagnsæi, jafnræði, lýðræðislega aðkomu þingsins og upplýsingagjöf til almennings. Frumvarp þessa efnis verður lagt fyrir Alþingi svo fljótt sem auðið er.“
Ekki verður ráðist í sölu á frekari hlutum í Íslandsbanka að sinni en ríkið á enn 42,5 prósent í bankanum. Þegar ný löggjöf liggi fyrir mun ákvörðun um mögulega sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka verða tekin fyrir á Alþingi.