Rússneski herinn er farinn að senda ómönnuð könnunarloftför yfir Sýrland. Þetta hefur fréttastofa Reuters eftir tveimur bandarískum embættismönnum. Eru það fyrstu aðgerðir rússneska hersins í loftrými Sýrlands síðan Rússar hófu að auka hernaðarumsvif sín í landinu.
Fyrir um það bil viku var greint frá því að líklegast væru Rússar að stækka flotastöð sína í hafnarborginni Latakíu við Miðjarðarhafið og að undirbúa flugstöð. Þá sagði Jeff Davis, upplýsingafulltrúi varnarmálaráðuneytisins í Pentagon, að Bandaríkin hefðu fylgst með auknum flutningum fólks og varnings til Latakíu.
Eftirlitsflug Rússa virðist hafa verið gert út frá Latakíu þar sem sést hefur til rússneskra herþota, þyrla og stórra herskipa undanfarna daga.
Embættismennirnir sem Reuters ræddi við gátu ekki staðfest hversu marga dróna Rússar hefðu sent til eftirlits og yfirvöld í Pentagon neituðu að tjá sig um málið. Fréttaskýrendur telja nokkra hættu á að þessi tvö öfl, Bandaríkin og Rússland, verði fyrir hvort öðru. Eftirlitsför eru nú á sveimi yfir Sýrlandi frá báðum löndum.
Á föstudag samþykktu varnarmálaráðherrar stórveldana tveggja að kanna leiðir til það koma í veg fyrir slys og um leið koma í veg fyrir óþarfa átök þeirra á milli. Þær samræður hafa að öllum líkindum hlotið meiri forgang eftir að Rússar hófu að fljúga eftirlitsflug.
Ríkin berjast gegn sameiginlegum óvini í Sýrlandi en Íslamska ríkið er óvinur þeirra af mismunandi ástæðum. Stjórnvöld í Kreml hafa lengi staðið á bak við stjórn Bashar al-Assad í Sýrlandi og taka þátt í baráttunni til að efla styrk sýrlenskra stjórnvalda. Það er hugsanlegt að Rússar geri ekki greinarmun á milli Íslamska ríkisins og annarra herskárra samtaka sem berjast gegn stjórnarher Assads. Einhver þessara samtaka njóta stuðnings Bandaríkjanna.