Í Kent austur af London hoppar nú um og leikur sér afkvæmi sem sannarlega hefur verið beðið eftir. Biðin spannar þúsundir ára því litla skepnan sem hér um ræðir er vísundskálfur. Enginn af hans tegund hefur fæðst í Bretlandi í mörg þúsund ár.
Vísundur er stórt klaufdýr sem lifir í Evrópu og Norður-Ameríku. Tvær tegundir vísunda eru til í nútíma: Amerískur vísundur og evrópskur. En þær hafa báðar átt undir högg að sækja síðustu áratugi – og mun lengur ef út í það er farið. Mögulega gætu málin verið að þróast í rétta átt eftir að metnaðarfullt verkefni sem miðar að því að endurheimta villta náttúru var hleypt af stokkunum.
Þrír vísundar voru fluttir inn frá Írlandi og komið fyrir á verndarsvæði í Kent í byrjun júlí. Líkt og rakið er í grein Guardian um málið var þá ekki vitað að „laumufarþegi“ var í hópnum. Það er ekkert skrítið að mannfólkið hafi ekki vitað af því að ein kýrin gekk með kálf því vísundar fela þunganir sínar vel og eins lengi og þeir geta. Það er náttúruleg vörn þeirra gegn rándýrum sem hafa kelfdar kýr og nýfædd ungviði oft í sigtinu. Það rándýr sem helst hefur ógnað vísundum í nútíma er þó ekki fjórfætlingur heldur mannskepnan.
Verðir í friðlandinu sem nú eru orðin heimkynni vísundanna uppgötvuðu ekki viðbótina, litlu vísundakúna, fyrr en nokkrum dögum eftir að hún fæddist. Móðir hennar hafði farið á afvikinn stað til að bera. Litla kýrin er augasteinn móður sinnar og hinna tveggja fullorðnu vísundanna og fer í hoppum og stökkum í kringum þau daginn út og inn.
Aðstandendur verkefnisins, sem eru náttúrusjóðir í Kent og á landsvísu, höfðu vissulega vonast eftir fjölgun í hópnum en ekki strax. Vísundarnir sem fluttir voru í friðlandið í sumar eru allt kvendýr en til stendur að karldýr bætist í hópinn á næstu dögum. Þangað verður það flutt frá Þýskalandi.
„Við sáum ekki kúna í nokkra daga og vorum nokkuð uggandi því hún er venjulega full sjálfstrausts og fremst í flokki vísundanna,“ segir einn friðlandsvörðurinn í samtali við Guardian. Hinar tvær kýrnar hafi á sama tíma verið eins og á nálum og ekki sjálfum sér líkar.
„Ég fór að leita að henni og eftir um það bil klukkustundar leit þá heyrði ég hljóð úr runnaþykkni,“ heldur vörðurinn áfram. „Ég vildi ekki fara of nálægt svo ég brá kíkinum á loft og þá sá ég til hennar og sá einnig það sem ég hélt að væri dádýr. Ég varð undrandi og spurði sjálfan mig hvernig stæði á því að dádýr væri svona nálægt vísundinum?“
En síðan kom hið rétta í ljós. „Allt í einu sá ég þetta litla andlit birtast fyrir framan fullorðnu kúna. Þetta var svo ótrúlegt, að þarna væri fæddur fyrsti villti vísundurinn á Englandi í langan tíma.“
Allar vísundakýrnar koma að uppeldi þeirrar litlu. Þær sleikja hana og fylgjast vel með hverju skrefi sem hún tekur. Ef móðirin er að hvíla sig er augljóst að hinar tvær kýrnar „passa“ litlu kúna.
Afkomendur aðeins tólf dýra
Í Evrópu er nú að finna um 9 þúsund vísunda. Þeir eru allir afkomendur aðeins tólf dýra sem haldið var í dýragörðum. Þótt dýragarðar séu ekki fullkomnir staðir fyrir dýr að dvelja á er óhætt að segja að í þessu tilfelli hafi slíkir bjargað evrópska vísundinum frá algjörri útrýmingu sem í stefndi í uppafi 20. aldarinnar.
Vísundarnir í Kent hafa yfir um 5 hektara svæði að ráða. Innan skamms verða þeir fluttir á 50 hektara svæði og næsta sumar á 200 hektara svæði þar sem þeir munu dvelja til frambúðar og vonandi fjölga sér.
Heimsmet í náttúruleysi
Villt náttúra er orðin af svo skornum skammti í Bretlandi að líklega er um heimsmet að ræða. Á síðustu árum hafa verkefni til endurheimtar verið fjármögnuð af bæði opinberum aðilum og einkaaðilum.
Vísundar skipta máli í þróun og viðgangi skóga, svo dæmi sé tekið. Þeir éta trjábörk, drepa þannig eldri tré svo það myndast svæði í þéttum skógum þar sem geislar sólar eiga greiðari aðgang að skógarbotninum og í honum fara að vaxa ýmsar jurtir sem svo aðrar dýrategundir þrífast á.