Samtök atvinnulífsins (SA) hvetja til þess að ríkið haldi áfram söluferli eignahluta þess í Íslandsbanka á næsta ári. Verði ekki af sölu bankans á árinu 2023 sé ein meginforsenda fjárlaga í uppnámi. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp.
Þar segir að sterk rök séu til þess að ríkið losi eignarhald á Íslandsbanka, meðal annars þau að hvergi var opinbert eignarhald fjármálafyrirtækja jafn mikið og hér á landi og að verulegir fjármunir ríkissjóðs liggi í áhætturekstri. „Þá eru að auki sterk rök fyrir því að losa um þessa fjármuni til að minnka skuldasöfnun ríkisins sem hefur verið gríðarleg síðust ár eins og kunnugt er. Það er því ljóst að verði ekki af sölu bankans á árinu 2023 er ein meginforsenda fjárlaga í uppnámi.“
Þar er vísað til þess að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að 75 milljarðar króna fáist fyrir eftirstandandi 42,5 prósent hlut ríkisins í bankanum. Sennilegt er að sala á honum myndi skila hærri upphæð, en markaðsvirði hans í dag er um 102 milljarðar króna. Verði hluturinn ekki seldur mun þurfa að brúa þetta 75,8 milljarða króna gat með lántökum, með tilheyrandi áhrifum á sjóðsstreymi og skuldastöðu. Það myndi þýða að heildarskuldir ríkisins yxu um sex prósent umfram það sem nú er gert ráð fyrir.
Frekari sala enn á ís
Hávær gagnrýni kom fram í kjölfar síðasta hluta sölumeðferðar á hlutum í Íslandsbanka, þegar 22,5 prósent hlutur ríkisins í bankanum var seldur til 207 fjárfesta í lokuðu útboði á verði sem var undir markaðsverði.
Kjarninn greindi frá því fyrir viku að ekki hafi verið tekin ákvörðun um áframhaldandi sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Yfirlýsing formanna stjórnarflokkanna þriggja frá 19. apríl, þar sem segir að ekki verði ráðist í sölu á frekari hlutum í Íslandsbanka að sinni, stendur því enn.
Þetta kom fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um áframhaldandi sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.
Ráðuneytið fær skýrslu Ríkisendurskoðunar í dag
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ákvað að fela Ríkisendurskoðun að rannsaka umgjörð og fyrirkomulag sölunnar en auk þess rannsakar Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands ýmsa þætti hennar, sérstaklega viðskipti sem áttu sér stað í aðdraganda sölunnar og atferli hluta þeirra söluráðgjafa sem ráðnir voru til að selja hluti í bankanum.
Það var gert þrátt fyrir háværar kröfur um að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis, sem hefur mun víðtækari rannsóknarheimildir, til að fara yfir söluna. Í könnun Gallup frá því í apríl kom fram að næstum þrír af hverjum fjórum aðspurðum vildi að rannsóknarnefnd yrði skipuð og taldi að ekki væri nægjanlegt að Ríkisendurskoðun skoðaði málið. Meirihluti kjósenda allra flokka utan eins, Sjálfstæðisflokks, voru á þeirri skoðun.
Ríkisendurskoðandi hefur lokið við gerð skýrslu sinnar, sem upphaflega átti að skila í júnímánuði, og hún fer í umsagnarferli í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og hjá Bankasýslu ríkisins í dag, miðvikudag. Búast má við því að skýrslunni verði skilað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í lok næstu viku og að hún verði í kjölfarið gerð opinber. Fjármálaeftirlitið hefur ekkert gert opinbert um sína skoðun á sölunni.
Í umsögn SA er vikið stuttlega að þessu og sagt samtökin vilji „í senn hvetja eindregið til að horft verði til þeirra ábendinga sem fram koma frá báðum aðilum en jafnframt að hvetja til að áfram verði haldið með söluferli eignahluta ríkisins í Íslandsbanka.“