Snjallsímaforritið Ökuvísir, tengt nýrri lausn fyrir bílatryggingar sem VÍS hefur sett á markað og auglýsir nú ákaft, fær aðgang að flokki gagna í Apple-símum sem heitir Health & Fitness, samkvæmt því sem fram kemur þegar notendur App Store skoða hvaða gögn forritið hagnýtir.
Þetta var til umræðu í nýjasta þætti Tæknivarpsins, en enginn þriggja þáttarstjórnenda hafði reyndar sótt Ökuvísi. Fyrstu svör um þessa gagnasöfnun, sem borist höfðu frá þjónustuveri VÍS, þóttu þó eilítið óskýr.
Kjarninn skoðaði málið og kannaði hvort VÍS væri að safna einhverjum heilsufarsupplýsingum um notendur sína í gegnum Ökuvísi. Það segist fyrirtækið ekki gera og svo er ekki að sjá heldur, eftir að forritið hefur verið sett upp.
Ökuvísir biður ekki um aðgang að þeim heilsugögnum sem safnast saman í snjallsímanum. Forritið biður hins vegar um aðgang að upplýsingum um hreyfingu og notandinn þarf að samþykkja að láta frá sér gögn sem falla undir Motion & Fitness þegar forritið er virkjað.
Þegar friðhelgisupplýsingar forritsins eru skoðaðar í App Store flokkast þessir tveir flokkar saman undir yfirflokknum Health & Fitness en þegar forritið hefur verið sett upp er ljóst að það biður einungis um aðgang að upplýsingum um hreyfingu, ekki heilsugögnin sem slík.
VÍS fær þannig ekki upplýsingar um hvíldarpúls eða mögulegar hjartsláttartruflanir notandans, en slík gögn safnast saman í heilsuforritinu í símanum ef fólk er með snjallúr um úlnliðinn. Forritið fær þó aðgang að gögnum um hreyfingu; hversu mörg skref eru tekin, upp hversu margar tröppur er gengið og hversu marga kílómetra á dag er ferðast, bæði í bíl, gangandi eða hjólandi.
Gögnum um ferðir einungis safnað stöðugt á 14 daga prufutímabili
„Appið er ekki að fá neinar heilsufarsupplýsingar ─ heldur eingöngu upplýsingar um hvort síminn sé á hreyfingu,“ segir í svari til Kjarnans frá Erlu Tryggvadóttur, samskiptastjóra tryggingafélagsins.
Hún sagði einnig að upplýsingum væri einungis safnað beint úr símum notenda á 14 daga prufutímabili forritsins, en að þeim tíma liðnum fái þeir sem kjósa að nota þessa lausn að lítið mælitæki í bílinn. Í kjölfarið séu bara bílferðirnar mældar, en síminn tengist mælitækinu með Bluetooth.
„Þetta er eingöngu á prufutímabilinu en eftir að viðkomandi kaupir trygginguna og fær kubbinn byrjar appið ekki að mæla fyrr en það tengist kubbnum,“ sagði í svari Erlu.
Tryggingafélög erlendis fylgjast með heilsu og hreyfingu
Erlendis hefur sú þróun átt sér stað að tryggingafélög bjóða upp á nýjungar þar sem upplýsingum um heilsu og hreyfingu úr snjalltækjum er safnað með samþykki notandans. Markmiðið virðist vera að skapa hvata fyrir fólk til þess að hreyfa sig meira, sem er skiljanlegt frá sjónarhóli tryggingafélaganna, enda ódýrara að tryggja fólk sem er vel á sig komið líkamlega.
Breska tryggingafélagið Vitality býður til dæmis viðskiptavinum sínum upp að fá gefins Apple-úr, ef notendurnir leyfa tryggingafélaginu að fylgjast með hversu mikið þeir sjálfir hreyfa sig og standa við ákveðin viðmið um hreyfingu. Ef þeir standast ekki viðmið um hreyfingu þurfa þeir að borga sjálfir fyrir úrið. Svipað hefur verið að gerast í Bandaríkjunum. Þar eru dæmi um að upphæðin sem fólk greiðir fyrir sjúkratryggingar sé að einhverju marki tengd við upplýsingar um bæði hreyfingu og heilsufar sem safnað er með snjallúrum.
Á Íslandi er þessi þróun ekki komin af stað, en viðbúið er að þetta gæti orðið veruleikinn í náinni framtíð. VÍS er með Ökuvísinum sínum að kynna til leiks fyrstu lausnina þar sem tækninni er beitt til þess að ákvarða iðgjöld á íslenskum vátryggingamarkaði, en forritið mælir aksturslag bílstjóra.
Yfirlýst markmið VÍS að auka umferðaröryggi
Kjarninn ræddi við Helga Bjarnason forstjóra VÍS um þessa nýjung í lok síðasta sumars, í kjölfar þess að tryggingafélagið óskaði eftir einstaklingum til að prófa vöruna áður en hún kæmi á markað. Í kjölfarið spruttu upp umræður um það hvort fyrirtækið sé ekki að ganga of langt í rafrænu eftirliti með viðskiptavinum sínum.
Helgi sagði í því viðtali að VÍS myndi aldrei setja vöru í loftið sem væri ekki í samræmi við gildandi persónuverndarlöggjöf. „Við leggjum mikla áherslu á að eiga náið og þétt samtal við Persónuvernd um Ökuvísinn,“ sagði hann.
Hann sagði einnig að VÍS væri að horfa til þess að verðleggja tryggingar eftir aksturslagi fremur en tjónasögu.
„Ég held að þetta hjálpi okkur öllum að verða betri ökumenn, bæði góðum að verða betri og líka þeim sem eru ekki góðir að verða góðir. Þannig sjáum við þetta fyrir okkur og okkar sýn og okkar trú er að þetta muni fækka slysum í umferðinni sem er gríðarlega stórt samfélagsmál,“ sagði Helgi.
Yfirgripsmikil persónuverndarstefna
Þegar notendur setja upp forritið frá VÍS þurfa þeir að samþykkja skilmála ítarlegrar persónuverndarstefnu, þar sem útskýrt er hvernig VÍS vinnur með þær persónuupplýsingar sem safnast í gegnum forritið.
Þar segir meðal annars að aðgangur að þeim upplýsingum sem Ökuvísir safnar sé háður „ströngum aðgangsstýringum“ og starfsmenn VÍS og vinnsluaðilar fái eingöngu aðgang sem er nauðsynlegur til að hver og einn geti sinnt starfi sínu.
Einnig séu öll hrágögn dulkóðuð og varðveitt undir gerviauðkennum í grunnkerfum VÍS og vinnsluaðila, sem er bandarískt fyrirtæki sem heitir Cambridge Mobile Telematics, en það fyrirtæki notar gögnin til að gefa notendum endurgjöf á aksturinn og þjónustar sambærilegar lausnir tryggingafélaga erlendis.
„Starfsmenn VÍS hafa ekki aðgang að persónugreinanlegum staðsetningarupplýsingum viðskiptavina. Aðgangur starfsmanna er skráður og rekjanlegur og allur aðgangur er yfirfarinn reglulega,“ segir í persónuverndarstefnunni.
Safna bara bílferðum þegar búið er að kaupa tryggingarnar
Þar er einnig vakin sérstök athygli á því að á 14 daga prufutímabilinu mæli forritið allar ferðir notandans. „Ástæðan fyrir því er sú að mælitækið er ekki sent til viðskiptavina fyrr en búið er að ganga frá vátryggingasamningi. Um leið og þú hefur staðfest við okkur ákvörðun þína um að kaupa trygginguna færðu mælitækið sent og þá er hægt að tryggja að Ökuvísir safni eingöngu upplýsingum um ferðir þínar í hinu vátryggða ökutæki,“ segir í persónuverndarstefnunni.
Þar er því heitið að persónuupplýsingarnar sem safnist verði ekki nýttar í öðrum tilgangi en þeim að fylgjast með ökuferðum.
„Við notum ekki persónuupplýsingar þínar í neinum öðrum tilgangi en samkvæmt því sem fram hefur komið í þessari persónuverndarstefnu. Persónuupplýsingar þínar verða t.d. ekki nýttar við vinnslu tjónamála, við áhættumat eða verðlagningu á öðrum vátryggingum, markaðstilgangi og þær verða aldrei seldar til þriðja aðila,“ segir VÍS.