Samfylkingin mælist með 19,1 prósent fylgi í nýjustu könnun Prósents sem birt er í Fréttablaðinu í morgun. Fylgi flokksins hefur aukist um 5,6 prósent síðan í síðustu könnun fyrirtækisins, sem var gerð í júní. Í millitíðinni hefur Samfylkingin kosið sér nýjan formann, Kristrúnu Frostadóttur, en í Fréttablaðinu í gær var greint frá því að samkvæmt könnun Prósents treystu flestir kjósendur henni af leiðtogum stjórnmálaflokka.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist áfram stærsti flokkur landsins og er nú með 21,1 prósent fylgi, en hann hefur alla jafna mælst með minni stuðning í könnunum Prósents en hjá öðrum könnunarfyrirtækjum. Þetta er í fyrsta sinn á þessu ári sem fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist yfir 20 prósent hjá fyrirtækinu.
Þessir tveir flokkar skera sig úr í íslenskum stjórnmálum, miðað við niðurstöðu könnunarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn myndi fá 15 þingmenn samkvæmt henni en Samfylkingin 14.
Fimm flokkar með yfir tíu prósent fylgi
Þrír aðrir flokkar ná tveggja stafa tölu í fylgi. Framsóknarflokkurinn, sem styrkti stöðu sína verulega í þingkosningunum fyrir rúmu ári og aftur í sveitarstjórnarkosningunum í vor, mælist með 14,6 prósent stuðning sem myndi tryggja flokknum tíu þingmenn. Píratar myndu fá 11,8 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag og átta þingmenn og Viðreisn 10,6 prósent og sjö þingmenn.
Hafa bætt við sig einum Framsóknarflokki á kjörtímabilinu
Samkvæmt könnun Prósents hafa þrír flokkar bætt við sig fylgi síðan í kosningunum í fyrrahaust, einn stendur nokkurn veginn í stað en fimm tapað fylgi.
Samfylkingin hefur bætt langmestu við sig, eða 9,2 prósentustigum. Fylgi flokksins hefur nánast tvöfaldast. Þar á eftir koma Píratar sem hafa bætt við sig 3,2 prósentustigum af fylgi og Viðreisn sem hefur bætt við sig 2,3 prósentustigum. Samanlagt hafa þessir þrír stjórnarandstöðuflokkar því aukið fylgi sitt um 14,7 prósent á fyrsta rúma árinu sem liðið er af kjörtímabilinu. Það er samanlagt meira en allt fylgi þriðja stærsta flokks landsins, Framsóknarflokksins.
Vinstri græn hafa tapað mestu fylgi, eða 4,6 prósentustigum. Alls hafa tæplega 37 prósent kjósenda flokksins yfirgefið hann á því rúma ári sem liðið er frá síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað 3,3 prósentustigum og Framsókn 2,7 prósentustigum. Saman hafa flokkarnir þrír sem mynda ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur því misst 10,6 prósentustig af fylgi síðan í lok september í fyrra og njóta nú einungis stuðnings 43,8 prósent landsmanna.
Ríkisstjórnin kolfallin
Ríkisstjórnin er kolfallin samkvæmt þessari könnun. Flokkarnir sem að henni standa myndu fá 30 þingmenn en eru með 38 í dag. Ýmis stjórnarmynstur gætu verið í kortunum miðað við þessa stöðu. Þeir fjórir flokkar sem í dag sitja í stjórnarandstöðu, og ná inn samkvæmt könnun Prósents eru Samfylking, Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins. Þeir mælast samanlagt með 33 þingmenn. Þessi staða myndi þó breytast hratt ef annað hvort Miðflokkurinn eða Sósíalistaflokkur Íslands bættu lítillega við sig og færu yfir fimm prósent þröskuldinn. Það myndi sennilegast þýða að þrír þingmenn hið minnsta myndu færast yfir á þann flokk.
Ef Samfylkingin ætlaði að mynda stjórn án Sjálfstæðisflokks þá væri möguleiki á því að mynda þriggja flokka stjórn, miðað við niðurstöðu könnunarinnar, með Framsókn og Pírötum. Hún myndi einnig hafa minnsta mögulega meirihluta.
Nokkrir möguleikar væru hins vegar á fjögurra flokka stjórnum. Í slíkum væri til dæmis hægt að skilja bæði Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk eftir í stjórnarandstöðu en saman eru Samfylking, Píratar, Viðreisn og Vinstri græn með 34 þingmenn.
Flestir treysta Kristrúnu
Fréttablaðið birti í gær könnun Prósents sem sýndi traust til formanna stjórnmálaflokka landsins. Þar kom fram að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, nyti mest trausts slíkra en 25,4 prósent aðspurðra sögðust treysta henni best.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra, kom þar næst en alls 17,5 prósent sögðust treysta henni. Hún hefur vanalega mælst sá stjórnmálamaður sem flestir Íslendingar treysta og vinsældir hennar náðu lengi langt út fyrir flokkinn sem hún stýrir. Þær hafa þó verið á hröðu undanhaldi, sérstaklega á þessu kjörtímabili.
Þá sögðust 15,4 prósent treysta Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, best allra formanna flokkanna. 11,3 prósent treysta Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, mest og 9,7 prósent treysta Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, best.
Katrín segir við Fréttablaðið í dag að kannanir hreyfi ekki sérstaklega við henni. „Eins og allir vita, sem vita eitthvað um pólitík, er það hlutverk forsætisráðherra að halda saman ríkisstjórn. Það er flókið verkefni.“
Kristrún segir á sama stað að mælingin sé ánægjuleg en að hún sé meðvituð um að vegferð hennar sé rétt að hefjast, og að hún verði löng. „Ég er þakklát fyrir að hafa náð eyrum fólks en ég held að það verði að setja þessa mælingu í samhengi við atburði síðustu vikna. Traust til stjórnmála og Alþingis er mjög vandmeðfarið.“ Könnunin var netkönnun framkvæmd 14. til 17. nóvember. Úrtakið var 2.600 og svarhlutfallið 51,3 prósent.