Kvörtunum sem Samherji beindi annars vegar til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu og hins vegar til nefndar um dómarastörf hefur verið vísað frá á báðum stöðum. Kvartanir sjávarútvegsfyrirtækisins lutu að störfum dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur og saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara.
RÚV sagði fyrst frá þessu og hefur það frá nefnd um eftirlit með lögreglu að ekki hafi þótt tilefni til að aðhafast umfram það að vekja athygli héraðssaksóknara á málinu. Nefndin sagði RÚV að hún hefði ekki eftirlit með störfum ákæruvaldsins nema hvað varðaði störf lögreglu.
Nefnd um dómarastörf komst síðan að niðurstöðu í málinu í gær og birti ákvörðun sína í dag. Nefndin vísaði kvörtun Samherja frá sökum þess að um dómsúrlausn, sem mögulegt er að bera undir æðri dóm, er að ræða. Í niðurstöðu nefndarinnar segir að Landsréttur hafi í tvígang fjallað um málsmeðferð héraðsdómarans, fyrst í athugasemd og síðan í forsendum, þar sem að úrskurðurinn var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Saksóknari sótti heimild til að sækja gögn hjá KPMG
Málið snýst um úrskurð sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun desembermánaðar. Þá fór embætti héraðssaksóknara fram á það, eins og Kjarninn sagði frá 6. febrúar, að endurskoðunarfyrirtækinu KPMG yrði gert að láta embættinu í té upplýsingar og gögn varðandi bókhald og reikningsskil Samherjasamstæðunnar á árunum 2011-2020 og sömuleiðis gögn um eina skýrslu sem KPMG vann um starfsemi Samherja á árunum.
Þegar embætti héraðssaksóknara lagði kröfuna fram bað embættið um að úrskurður yrði kveðinn upp án þess að fulltrúar KPMG yrðu kvaddir fyrir dóm. Á það féllst dómari, en lesa má í úrskurði héraðsdóms að það hafi verið mat embættisins að vitneskja um rannsóknaraðgerðina fyrirfram innan endurskoðunarfyrirtækisins gæti spillt fyrir rannsókn málsins. Gögnin voru síðan sótt til KPMG.
Samherji reyndi að skjóta úrskurðinum til Landsréttar, en kærunni var vísað frá vegna aðildarskorts. Landsréttur sagði hins vegar að meðferð málsins fyrir héraðsdómi hefði verið aðfinnsluverð.
Það sem talið var aðfinnsluvert og Samherji var að kvarta yfir var að dómarinn í héraðsdómi, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, hefði ekki skoðað sérstaklega þau rannsóknargögn sem lágu til grundvallar kröfu um gögn og upplýsingar frá KPMG og að ranglega hafi verið greint frá því í úrskurði og þingbók að slík gögn hefðu legið frammi við uppkvaðningu úrskurðarins.
Kröfugerð frá héraðssaksóknara ítarleg, að sögn dómara
Í athugasemdum til nefndar um dómarastörf sagði dómarinn að misritun hefði átt sér stað, bæði um dagsetningu úrskurðar og um það hvort gögn hefðu legið frammi í dóminum. Mistökin væru á hennar ábyrgð. Dómarinn hefði ekki gætt þess að lesa nægilega vandlega yfir forskráð atriði í þingbók.
Dómari sagði nefndinni einnig að kröfugerð héraðssaksóknara hefði verið ítarleg og þar hefði verið vitnað orðrétt til ýmissa gagna. Hafi það verið mat hennar í ljósi þessa og með hliðsjón af rökstuðningi saksóknara að lagaskilyrðum væri fullnægt og taka mætti kröfuna til greina.
Því var Landsréttur hins vegar ósammála, er málinu var skotið þangað í annað sinn. Úrskurðurinn frá því í desember var ógiltur og málinu vísað aftur heim í hérað.
Fram kemur í niðurstöðu nefndarinnar að úr annmörkunum sem voru á meðferð málsins hafi hins vegar verið bætt við endurflutning í héraðsdómi í marsmánuði.