Í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í dag eru birtar heilsíðuauglýsingar frá Samherja með fyrirsögninni „Við gerðum mistök og biðjumst afsökunar“. Um er að ræða bréf sem fjallar um starfsemi útgerðarinnar í Namibíu og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, skrifar undir bréfið.
Þar segir að „ámælisverðir viðskiptahættir“ hafi fengið að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu. Veikleikar hafi verið í stjórnskipulagi og lausatök sem ekki áttu að líðast. „Við brugðumst ekki við eins og okkur bar. Þetta hefur valdið uppnámi hjá starfsfólki okkar, fjölskyldum, vinum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víða í samfélaginu. Við hörmum þetta og biðjumst einlæglega afsökunar.“
Þorsteinn Már segist líka gera það persónulega sem forstjóri og einnig fyrir hönd félagsins. „Við viljum ekki láta við það sitja að biðjast afsökunar heldur draga lærdóm af þessum mistökum og tryggja að ekkert slíkt gerist aftur. Í því skyni höfum við gripið til viðamikilla ráðstafana. Frá upphafi hefur það verið meginmarkmið okkar að framleiða hágæða sjávarafurðir í sátt við umhverfið með ríka áherslu á sjálbærni og góða umgengni við auðlindir sjávar. Við viljum halda því áfram og horfa fram á veginn. Mistök okkar í Namibíu eru ekki síst okkur sjálfum mikil vonbrigði. Við munum ekki láta slíkt henda aftur.“
Sex með réttarstöðu grunaðs
Samherjamálið komst í hámæli eftir að þáttur Kveiks sem opinberaði starfsemi Samherja í Namibíu fór í loftið í nóvember 2019 en umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.
Málið er til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara og skattayfirvöldum hérlendis. Það er einnig til rannsóknar í Namibíu þar sem fjölmargir einstaklingar hafa verið ákærðir. Í Færeyjum hefur Samherji þegar greitt mörg hundruð milljón króna í vangoldina skatta og meint skattasniðganga fyrirtækisins þar hefur verið tilkynnt til lögreglu.
Þorsteinn Már er á meðal þeirra sex einstaklinga sem eru með réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á starfsemi Samherja.
Hinir fimm sem kallaðir hafa verið inn til til yfirheyrslu og fengið réttarstöðu sakbornings við hana eru Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja og ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, og Jóhannes Stefánsson.
Jóhannes var framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu um tíma en lék lykilhlutverk í því að uppljóstra um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja í umfjöllun Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera um málið.
Sögðust hafa gengið of langt
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Samherji biðst afsökunar á atferli sínu.
Í yfirlýsingu sem birst á vef fyrirtækisins í lok síðasta mánaðar, eftir að Kjarninn og Stundin höfðu opinberað starfsemi svokallaðrar „skæruliðadeildar“ Samherja, sagði að ljóst væri að stjórnendur félagsins hafi gengið „of langt“ í viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun um félagið“.
„Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu,“ sagði í yfirlýsingu fyrirtækisins, en ekki var útskýrt í frekari smáatriðum að hvaða leyti gengið hafi verið of langt eða nákvæmlega hverju verið sé að biðjast afsökunar á.
Í yfirlýsingunni sagði einnig að stjórnendum og starfsfólki Samherja hafi þótt umfjöllun og umræða um fyrirtækið á undanförnum árum „einhliða, ósanngjörn og ekki alltaf byggð á staðreyndum.“ Þegar svo sé – og „vegið að starfsheiðri með ósanngjörnum hætti á opinberum vettvangi“ – geti reynst erfitt að bregðast ekki við.