Jón Óttar Ólafsson, starfsmaður Samherja, sendi tölvupóst á Egil Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóra útgáfunnar Forlagsins, tveimur dögum fyrir jól árið 2019 þar sem hann hótaði því að Forlagið yrði dregið fyrir dóm í Bretlandi ef það innkallaði ekki bók um Samherja. Frá þessu greinir Egill í Stundinni í dag, en þar er umfangsmikil umfjöllun um hið svokallaða Namibíumál Samherja í ljósi þess að 1001 dagur er síðan að málið var fyrst opinberað, í nóvember 2019.
Bókin sem Jón Óttar fór fram á að yrði innkölluðu heitir „Ekkert að fela: Á slóð Samherja í Afríku“ og var eftir sama þriggja manna teymið og vann umfjöllun um málið fyrir Kveik á RÚV, þá Aðalstein Kjartansson, Helga Seljan og Stefán Drengsson.
Í tölvupóstinum sem Jón Óttar sendi sagði meðal annars að Forlagið ætti að innkalla bókina til að spara sér mikinn kostnað við málaferli í London: „Googlaðu bara English defamation law og hvað málaflutningsmaður QC kostar á klukkutímann. Þetta er ekki hótun ... bara að aðstoða þig að taka upplýsta ákvörðun.“
Boðaður á fund á skrifstofu forstjóra Samherja
Áður en tölvupósturinn var sendur hafði Jón Óttar tvívegis komið óboðin, og án þess að eiga skýrt erindi, á skrifstofur Forlagsins á Bræðraborgarstíg. Þar átti hann óformlegt og ómerkilegt spjall við Egil sem fól ekki í sér neinar hótanir eða annað slíkt, en var að sögn Egils svo ómerkilegt að hann man ekki lengur hvað fór þeirra á milli. Hann hafi þó tengt heimsóknir Jóns Óttars við einhverskonar taktík sem Samherji væri að beita vegna umfjöllunar um sig, sem hann botnaði þó ekkert í hver væri.
Á þeim fundi spilaði Jón Óttar fyrir Egil efni á fartölvu sem átti að sýna fram á að það sem væri í bókinni væri lygi. „Og gefa mér þannig, eða öllu heldur Forlaginu, færi á að innkalla bókina ellegar myndu þeir fara í mál við okkur.“ Efnið voru myndbönd og upptökur af Jóhannesi Stefánssyni, uppljóstrara í Namibíumálinu, sem áttu að sýna fram á það að hann væri ótrúverðugur sem heimildarmaður. Egill sagði efnið sýna Jóhannes í ójafnvægi í samhengislitlu samtali sem tengdist ekkert efni bókarinnar. „Mér fannst einhvern veginn tilgangurinn vera sá að sýna mér hvurslags ómenni Jóhannes væri.“ Ekkert í því sem Jón Óttar sýndi honum eða sagði gaf tilefni til að innkalla bókina.
Sendu áskilnaðarbréf á Þorláksmessu
Í umfjöllun Stundarinnar segir Egill að Jón Óttar hafi haft samband nokkrum dögum síðar til að leita svara um hvort bókin yrði innkölluð. Þegar honum var sagt að svo yrði ekki segir Egill að Jón Óttar hafi tjáð honum að framundan væru þá fokdýr réttarhöld. „En ég tók mjög lítið mark á þessu öllu satt að segja og hafði ekki áhyggjur af þessu og hef ekki enn.“
Í tölvupósti til Egils sagði Jón Óttar að hann ætti að bera það undir lögmann sinn hversu dýr málarekstur í Bretlandi væri. Í kjölfarið hótaði hann að fara í mál við bæði Forlagið og blaðamennina sem skrifuðu bókina. Í tölvupóstinum stóð: „Þegar þu nærð á hann [lögmanninn] geturðu spurt hann hvort þu eigir að hafa ahyggjur af þvi að ásakanirnar og bókin eru rædd um allt netið a ensku og ég er með kúnna i London. Helgi Seljan og strakarnir [Aðalsteinn Kjartansson og Stefán Drengsson] verða að sanna i London að þetta sem er i bókinni er rétt. Það er ekki mitt að sanna að það se rangt. Þeir verða þar fyrir dómstólum næstu árin.“
Einnig greint frá því að daginn eftir að tölvupóstur Jóns Óttars barst, á Þorláksmessu árið 2019, hafi Forlaginu borist tvö áskilnaðarbréf frá tveimur aðskildum lögmönnum. Þau voru skrifuð fyrir hönd tveggja yfirmanna Samherja, Þorsteins Más Baldvinssonar og Örnu McClure, sem töldu að rangfærslur um sig væri að finna í bókinni. Í slíkum bréfum er tekið fram að skjólstæðingar umræddra lögmanna áskilji sér rétt til að sækja einhvern rétt. Í Stundinni er haft eftir Agli að það sé „oft siður að reyna að terrorisera fólk rétt fyrir jól, þannig að þetta kom mér ekkert á óvart og tók mig ekki á taugum.“
Egill segir við Stundina að honum hafi fundist framferði Jóns Óttars kjánalegt sem fulltrúa Samherja. „Að láta sér detta það í hug að það gæti verið skynsamlegt bara að fara fram á þetta við mig. Í mínum huga myndi það aldrei gagnast málstað þeirra, því þeir voru náttúrlega að reyna einhvern veginn að koma sínum málstað á framfæri með einhverjum hætti. Að dúkka upp á bókaforlagi vestur í bæ og með þær hugmyndir að við myndum innkalla bók. Mér fannst það bara fáránlegt og mér finnst það enn.“
Norskur fræðimaður segir að sér hafi líka verið hótað
Í umfjöllun Stundarinnar er einnig greint frá útgáfu annarrar bókar sem Samherji reyndi að hafa áhrif á. Þar var um að ræða bók eftir Petter Gottschalk, norskan prófessor í viðskiptafræði, sem skrifaði bókina Financial Crime Issues: Fraud Investigations and Social Control sem var gefin út af af Springer-forlaginu. Forlagi sem sérhæfir sig í útgáfu fræðibóka. Í bókinni er kafli um Namibíumálið sem heitir „Fishing Rights Corruption“.
Samherjarannsóknin á Íslandi langt komin
Í umfangsmikilli umfjöllun Stundarinnar um hvað hafi gerst í Samherjamálinu á þeim 1001 degi síðan það var opinberað er líka rætt við Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknar um rannsókn embættisins á Samherjamálinu, en átta manns hið minnsta hafa fengið réttarstöðu sakbornings við yfirheyrslur hjá embættinu frá því að fyrsta lota þeirra hófst í sumarið 2020. Á meðal þeirra er Þorsteinn Már, forstjóri Samherja. Aðrir sem kallaðir hafa verið inn til yfirheyrslu og fengið stöðu sakbornings við hana eru Ingólfur Pétursson, fyrrverandi fjármálastjóri Samherja í Namibíu, Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja og ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem starfað hefur fyrir Samherja árum saman, og uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson.
Þau brot sem grunur er um að hafi verið framin í Samherjamálinu varða 109. og 264. grein almennra hegningarlaga um mútur. Í fyrrnefndu greininni segir að hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að fimm árum eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi. „Sömu refsingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opinberum starfsmanni, erlendum kviðdómanda, erlendum gerðarmanni, manni sem á sæti á erlendu fulltrúaþingi sem hefur stjórnsýslu með höndum, starfsmanni alþjóðastofnunar, manni sem á sæti á þingi slíkrar stofnunar eða á opinberu löggjafarþingi í erlendu ríki, dómara sem á sæti í alþjóðlegum dómstóli eða starfsmanni við slíkan dómstól, í því skyni að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans.“
Í 264. grein segir að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á hegningarlögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að sex árum.
Í Stundinni er haft eftir Ólafi Þór að rannsóknin á Íslandi sé langt komin. Líkt og Kjarninn greindi frá í júní er helsta hindrun þess að hægt sé að ljúka rannsókn á þeim anga Samherjamálsins sem er til rannsóknar hjá íslenskum rannsóknarembættum sú að enn vantar á að fá ýmiskonar gögn frá Namibíu til Íslands. Réttarbeiðni vegna þessa er enn útistandandi og ekki liggur fyrir hvenær hún verður þjónustuð. Fundir með bæði þarlendum rannsóknaryfirvöldum, og síðar háttsettum stjórnmálamönnum, hafa liðkað fyrir því að það gangi hraðar fyrir sig.
Grunur um skattaundanskot upp á hundruð milljóna
Til viðbótar var ráðist í rannsókn á meintum stórfelldum skattalagabrotum Samherjasamstæðunnar hjá embætti skattrannsóknarstjóra. Ríkisstjórnin lagði það embætti niður og gerði að deild innan Skattsins í fyrra.
Kjarninn greindi frá því í ágúst 2021 að tilfærsla stærri skattrannsókna hafi setið föst, og ekki komist yfir til héraðssaksóknara frá því að lög um niðurlagningu skattrannsóknarstjóra tóku gildi. Ástæðan var sú að innan embættanna var ótti við að rannsókn mála gæti skemmst á tæknilegum forsendum ef formlegar verklagsreglur lægju ekki fyrir.
Í kjölfar umfjöllunar Kjarnans um málið voru formlegar verklagsreglur settar og við það losnaði sá tappi sem myndast hafði milli embættanna og mál sem höfðu verið á bið mánuðum saman gátu færst í áframhaldandi rannsókn hjá héraðssaksóknara. Á meðal þeirra er skattahluti Samherjamálsins sem færðist yfir í september 2021.
Heimildir Kjarnans herma að meðal þess sem þar hafi verið til skoðunar sé hvort raunverulegt eignarhald á allri Samherjasamstæðunni sé hérlendis og hvort að ákvörðun um að greiða skatta annarsstaðar en hér sé þar með stórfelld skattasniðganga. Þar er um að ræða möguleg brot á svokallaðri CFC löggjöf sem verið hefur í gildi hérlendis frá árinu 2010.
Í Stundinni er greint frá því að skattayfirvöld á Íslandi telji að Samherji hafi komið sér undan því að greiða skatta upp á mörg hundruð milljóna króna.