Samherji hefur ráðið Karl Eskil Pálsson til að skrifa efni á heimasíðu og samfélagsmiðla samstæðunnar og sinna öðrum verkefnum á sviði upplýsingamála. Karl Eskil starfaði síðast sem dagskrárgerðarmaður hjá sjónvarpsstöðinni N4 á Akureyri, sem er að hluta til í eigu Samherja og hefur meðal annars unnið keypta umfjöllun um samstæðuna fyrir þá stöð. Áður starfaði hann í um tvo áratugi á fréttastofu RÚV á Akureyri og var ritstjóri héraðsfréttablaðsins Vikudags.
Í tilkynningu á vef Samherja segist Karl Eskil vera „fullur tilhlökkunar og þakklátur fyrir að hafa verið munstraður um borð“. Mörg stór verkefni séu í farvatninu hjá Samherja sem samstæðan vilji „segja frá og upplýsa með vönduðum og traustum hætti.“
Bæði embætti héraðssaksóknara og embætti skattrannsóknarstjóra eru með samstæðu Samherja, og ýmsa starfsmenn hennar, til rannsóknar. Sú rannsókn hefur staðið yfir frá lokum árs 2019, en hún hófst eftir að Kveikur og Stundin opinberuðu að grunur væri á að Samherji hefði greitt mútur, meðal annars til háttsettra stjórnmálamanna, til að komast yfir fiskveiðikvóta í Namibíu og Angóla. Á sama tíma voru birtar upplýsingar sem bentu til þess að Samherji væri mögulega að stunda stórfellda skattasniðgöngu og peningaþvætti.
Á meðal þeirra var Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sem var fyrst yfirheyrður í byrjun júlí 2020.
Skæruliðadeild og afsökunarbeiðni
Í maí fjölluðu Kjarninn og Stundin um hóp á vegum Samherja sem rak áróðursstríð fyrir hönd samstæðunnar gegn ákveðnum fjölmiðlum.
Í samtölum lýsti hópurinn sér sem .„skæruliðadeild Samherja“. Í gögnum sem Kjarninn hafði undir höndum, og sýndu meðal annars samskipti milli þessa hóps og helstu stjórnenda Samherja, mátti sjá hversu mikið var lagt í að safna upplýsingum um blaðamenn, reyna að gera þá ótrúverðuga og jafnvel vanhæfa til að fjalla áfram um Samherja.
Nokkrum dögum eftir að umfjöllunin birtist sendi Samherji frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að stjórnendur félagsins hefðu gengið „of langt“ í viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun um félagið“.
„Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu,“ sagði í yfirlýsingu fyrirtækisins, en ekki er útskýrt í frekari smáatriðum að hvaða leyti gengið hafi verið of langt eða nákvæmlega hverju verið sé að biðjast afsökunar á.
Samherji vísaði þó til fjölmiðlaumfjöllunar um þau samskiptagögn fyrirtækisins sem Kjarninn og Stundin hafa undir höndum og fjallað um undanfarna viku í fréttum og fréttaskýringum. Fyrirtækið segir að „þau orð“ og „sú umræða sem þar var viðhöfð“ hafi verið „óheppileg“.