Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur gert þingmönnum, sem eiga sæti í samráðsnefnd um afnám hafta, að þeir eigi að vera viðbúnir fundi í nefndinni í dag eða á morgun. Þetta kom fram í máli Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, á þingi í dag.
Árni Páll gerði stöðugleikaskilyrðin, sem slitabúum gömlu bankanna er gert að uppfylla til að fá undanþágu frá fjármagnshöftum og klára nauðasamninga, að umtalsefni í þinginu. Hann sagði að mjög misvísandi upplýsinga hefði gætt um málið, og nefndi frétt Bloomberg frá því í morgun í því samhengi.
Bloomberg greindi frá því að ólíklegt væri að íslensk stjórnvöld myndu samþykkja tillögur slitabúanna, sem hljóða upp á greiðslu stöðugleikaframlags upp á rúmlega 340 milljarða króna. Bloomberg segir að stjórnvöld vilji minnst 470 milljarða króna úr stöðugleikaframlaginu.
„Ekkert hefur verið upplýst opinberlega um forsendur þessara mikilvægu ákvarðana,“ sagði Árni Páll, en sagðist meta það við Bjarna að hann hefði boðað til fundar í samráðsnefndinni í dag eða á morgun. Hann vildi því spyrja hvort allar forsendur verði ekki gerðar opinberar áður en ákvörðun yrði tekin af hálfu ríkisstjórnarinnar.
Bjarni sagði að það væri skrifað inn í lögin hvernig ferlinu við undanþágubeiðnir er háttað. Seðlabankinn meti tillögurnar, og svo leggi fjármálaráðuneytið sjálfstætt mat á þær. Fjármálaráðherra eigi svo að kynna málið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. „Það er alveg ljóst að við munum, ef til þess kemur, ræða málið hér í þinginu.“
Sigmundur segir kröfuhafa vera að brenna inni á tíma
Í áðurnefndri frétt Bloomberg segir að stjórnvöld miði við að stöðugleikaframlagið þurfi að vera um 470 milljarðar króna í útreikningum sínum, og því beri enn of mikið á milli hugmynda þeirra og slitabúanna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir í samtali við Bloomberg að slitabúin séu að brenna inni á tíma við að klára sín mál. Hann sagði að hluti kröfuhafa vær nær því að mæta stöðugleikaskilyrðunum en aðrir, en vildi ekki útskýra það nánar.
Samkvæmt heimildum Kjarnans gengur mun betur að ganga frá stöðugleikaframlagi slitabúa Landsbankans og Kaupþings en Glitnis, sem er það bú sem samþykkt hefur að greiða langhæstu greiðsluna í framlag, alls um 200 milljarða króna.
Mikil gagnrýni hefur verið á það uppgjörsferli sem er í gangi og stefnt er að því að klára með greiðslu stöðugleikaframlags, sérstaklega vegna skorts á gagnsæi. InDefence-hópurinn, sem Sigmundur Davíð var einu sinni hluti af, hefur til að mynda sagt að að kröfuhafar séu að fá ódýra leið út úr íslenskum höftum sem muni skerða lífskjör almennings.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri virðist þó mun bjartsýnni en margir aðrir á að það muni takast að ljúka nauðasamningsgerð föllnu bankanna fyrir áramót. Í bréfi sem hann skrifaði InDefence-hópnum í september sagði hann að þau ð nauðasamningum sem slitabú föllnu bankanna þriggja hafa sent inn til Seðlabankans uppfylla „í stórum dráttum skilyrði um stöðugleika í gengis- og peningamálum“ og tryggja fjármálalegan stöðugleika í íslensku hagkerfi. Ýmis atriði þarf þó að skoða nánar, meðal annars áhrif nauðsamninganna á á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja og söluferli Íslandsbanka og Arion. „Sú skoðun er á lokastigi og í framhaldi af því gætu skapast forsendur fyrir nánari opinberri kynningu“.
Kjarninn fjallaði um það nýverið að titrings gæti á meðal kröfuhafa föllnu bankanna um þessar mundir vegna tafa sem hafa orðið á ferlinu.