„Við erum að haga okkur öðruvísi, það er það sem er að hafa mestu áhrifin,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um hverju við væri að búast af hinu breska afbrigði kórónuveirunnar í samfélaginu nú. Kári var spurður út í þetta í lok málþingsins Varið land – hvað höfum við lært af COVID-19? sem fram fór í dag á vegum ÍE. Á málþinginu, sem var streymt í beinni á Facebook, var farið yfir niðurstöður rannsókna sem fyrirtækið hefur unnið að frá því að faraldurinn kom upp, m.a. þær sem tengjast raðgreiningum og mótefnamælingum og nú langvinnum áhrifum sjúkdómsins á heilsu þeirra sem veiktust.
„Ekki gleyma því að þessi sjúkdómur er að mörgu leyti hegðunarsjúkdómur,“ sagði Kári. Hvernig maðurinn hagar sér skipti miklu meira máli heldur en af hvaða afbrigði veiran sé. Undanfarnar vikur hafi smit lekið yfir landamærin og „fólki gengur misvel að fara eftir sóttkví,“ sagði Kári. „Við verðum einhvern veginn að finna leið til að takast á við það. Takast á við það án þess að misbjóða fólki sem við setjum í sóttkví. Þessar aðferðir sem Þórólfur [Guðnason] og hans fólk hefur sett saman þær duga til þess að hemja þetta svo fremi sem við förum að þeim ráðum sem við fáum.“
Það var Þórólfur sóttvarnalæknir sem hafði lokaorðin á málþinginu. Hann byrjaði á því að rifja upp orð Kára frá því í upphafi faraldursins. „Hann sagði að nálgast þyrfti svona faraldur eins og vísindaverkefni. Það þyrfti að spyrja ákveðinna spurninga sem reynt yrði að svar með vísindalegum aðferðum. Þetta held ég að hafi verið alveg hárrétt hjá honum.“
Hann sagði að með þeim hætti þyrfti að undirbúa sig fyrir faraldra framtíðarinnar. „Hvernig ætlum við að fást við þá? Því þeir koma aftur. Heimsfaraldur inflúensu á eftir að koma aftur. Við eigum eftir að fá nýjar veirur. Þá þurfum við að vera í stakk búin til að taka á þessu á vísindalegan máta. Svara spurningum og grípa til réttra aðgerða.“
Þórólfur þakkaði að lokum Íslenskri erfðagreiningu fyrir þeirra þátt og þeirra vinnu í baráttunni gegn COVID-19. „Þetta hefur verið algjörlega ómetanlegt og mjög ánægjulegt samstarf,“ sagði Þórólfur og bætti svo við á léttum nótum: „Svona langoftast. Og næstum því alltaf.“