Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í október að hann ætlaði að stofna „byltingarkennt tæknifyrirtæki“. Úr varð nýr samfélagsmiðill, Truth Social.
„Ég stofnaði Truth Social til að standa uppi í hárinu á alræði stóru tæknifyrirtækjanna,“ sagði Trump þegar hann greindi frá samfélagsmiðlinum síðastliðið haust. „Við lifum í heimi þar sem talíbanar hafa greiðan aðgang að Twitter en á sama tíma hefur verið þaggað niður í uppáhalds forsetanum ykkar.“
Trump notaði samfélagsmiðla óspart í kosningabaráttu sinni til embættis Bandaríkjaforseta sem og eftir að hann náði kjöri. Trump var oft sakaður um grófar, svívirðilegar og falskar upplýsingar í færslum sínum og voru samfélagsmiðlafyrirtæki á borð við Facebook og Twitter oft krafin um að banna Trump á miðlum sínum eða takmarka efni sem hann birti. Það gerðist hins vegar ekki fyrr en að forsetatíð hans lauk og eftir árásina á þinghúsið í byrjun janúar 2021. Bann Trump á Facebook gildir í að minnsta kosti tvö ár en Trump var settur í lífstíðarbann á Twitter.
Samfélagsmiðillinn Truth Social, „Sannleikssamfélagið“, fór í loftið 21. febrúar, á sjálfum forsetadeginum, sem þótti styrkja þær sögusagnir að Trump stefni á forsetaframboð 2024.
Nærri ein og hálf milljón á biðlista
En vandræðin hafa hlaðist upp síðustu sex vikur. Sú einkennilega staða er til að mynda uppi núna að nýir notendur fá ekki aðgang að miðlinum en enda þess í stað á biðlista. Blaðamaður BBC sem bjó til aðgang að Truth Social varð að láta sér nægja að vera númer 1.419.631 í röðinni. Ástæðan er sögð tæknilegir örðugleikar.
Truth Social minnir um margt á Twitter en aðgengið er takmarkað. Ekki er hægt að hlaða smáforritinu niður í snjalltækjum með Android-stýrikerfi og miðillinn er óaðgengilegur að mestu leyti utan Bandaríkjanna.
„Þetta er algjör hörmung,“ segir Joshua Tucker, yfirmaður samfélagsmiðla- og stjórnmálastofnunar New York háskóla. Bandamaður Trump úr röðum repúblikana, sem vill ekki láta nafns síns getið, segir engan vita hvað sé í raun og veru á seyði.
Daginn sem Truth Social var gefið út var það á meðal mest sóttu smáforritanna í App Store, en margir sem sóttu miðilinn gátu ekki notað hann. Búist var við að fljótt yrði greitt úr þessum byrjunarörðugleikum og að fylgjendur forsetans fyrrverandi gætu fljótt fylgst með „sannleiksfærslum“ hans. En hvorugt gerðist. Truth Social hefur hrunið niður vinsældarlistann á App Store og nær ekki lengur inn á lista yfir 100 vinsælustu smáforritin á meðan YouTube, TikTok, Instagram og Facebook halda sínum sætum yfir tíu vinsælustu smáforritin.
Umræða um Truth Social hefur skapast á öðrum samfélagsmiðlum. „Trump verður orðinn forseti aftur áður en ég kemst af biðlistanum og farinn að nota Truth Social fyrir alvöru,“ tístir einn.
Trump ævareiður og spyr af hverju notendurnir séu ekki fleiri
Engar skýringar hafa verið gefnar á tæknilegu örðugleikunum. Einhverjir hafa bent á að samstarf Truth Social við Rumble, myndskeiðaforrit sem nýtur vinsælda meðal hægri sinnaðra Bandaríkjamanna, hægt á virkni miðilsins. Á sama tíma er bent á að það útskýri ekki sex vikna tæknilega örðugleika.
Tveir helstu tæknifrumkvöðlar Truth Social sögðu upp störfum á mánudag. Josh Adams, yfirmaður tæknimála, og Billy Boozer, yfirmaður vöruþróunar, eru reynslumiklir frumkvöðlar í tæknigeiranum og íhaldssamir í stjórnmálaskoðunum sínum, nokkuð sem er ekki algengt í tæknigeiranum. Þeir voru því akkúrat það sem Trump þurfi á halda, en hafa nú sagt skilið við hann og sannleikssamfélagið.
Fylgjendur Trump á miðlinum eru um 750 þúsund en sjálfur hefur hann ekki birt „sannleika“ í meira en mánuð. „Verið viðbúin! Uppáhalds forsetinn ykkar mun sjá ykkur fljótlega!“ segir í síðustu færslu hans á sannleikssamfélaginu sem birtist í byrjun mars. Síðan þá hefur ekkert gerst. Trump er sagður ævareiður og spyr hvers vegna fleiri séu ekki að nota Truth Social?