2,4 milljónir horfðu á fyrsta þáttinn um Harry og Meghan í nýrri heimildarþáttaröð sem sýnd er á Netflix og kom út í gær, fleiri en horfðu á fyrsta þáttinn í nýjustu Crown-þáttaröðinni, daginn sem fimmta þáttaröðin kom út.
Konungssinnar jafnt sem þau sem hafa óbeit á bresku konungsfjölskyldunni hafa beðið í ofvæni eftir heimildarþáttunum Harry og Meghan þar sem þau greina frá „sannleikanum þeirra“ á öllu því sem átti sér stað frá því að þau kynntust sumarið 2016 þar til þau sögðu skilið við allar konunglegar skyldur innan bresku konungsfjölskyldunnar í mars 2020 og fluttu til Kaliforníu.
Spennan hefur verið svo mikil að þegar fyrri hluti þáttaraðarinnar, sem heitir einfaldega Harry and Meghan, birtist á Netflix í gær voru bæði BBC og The Guardian með beina textalýsingu á því sem fyrir sjónir bar.
Fljótlega fór þó að bera á vonbrigðum og gagnrýnendur virðast vera sammála um eitt: Þættirnir standast ekki þær væntingar sem gerðar voru til þeirra. En. Þetta er bara fyrri helmingurinn.
Ekki nógu afhjúpandi
Helsta gagnrýnin snýr að því að það kemur í raun og veru ekkert fram í þáttunum. Viðtal Opruh Winfrey við hjónin hafi verið meira afhjúpandi en nú þegar þau sjálf fá alfarið að ráða ferðinni. Eðlilega kannski?
Í þáttunum þremur sem eru komnir út fara hjónin yfir hvernig þau kynntust, á Instagram. Fyrsti þátturinn er því ágætis auglýsing fyrir samfélagsmiðilinn. Að auki er rætt við hina og þessa vini hjónanna sem segja frá upplifun sinni af fyrstu kynnum Harrys og Meghan.
Gagnrýnendur eru sammála um að þættirnir standast ekki samanburð við afhjúpandi viðtöl sem aðrir úr konungsfjölskyldunni hafa veitt, til að mynda viðtalið við Karl í Dimbleby, viðtalið við Díönu í Panorama og hvað þá viðtalið við Andrew prins í Newsnight þar sem hann var spurður út í tengsl sín við Jeffrey Epstein.
Verra en Kardashian-fjölskyldan
„Leiðinlegt, fyrirsjáanlegt, klisjukennt, algjörlega smjaðurskennt.“ Þannig lýsir fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan, sem virðist þurfa að hafa skoðun á öllu þessa dagana, þáttunum og það ætti ekki að koma á óvart að hann er ekkert sérstaklega hrifinn. Morgan var, líkt og stærstu bresku miðlanir, með beina textalýsingu um þættina, en notaði Twitter þar sem hann er með rúmlega átta milljónir fylgjenda.
Morgan sakaði hjónin einnig um að sýna Elísabetu Englandsdrottningu, ömmu Harrys, óvirðingu með því að gera grín að því að hafa þurft að hneigja sig fyrir henni.
When even the wokest people on Twitter call you a nasty bully… https://t.co/6j965cuRK4
— Piers Morgan (@piersmorgan) December 8, 2022
Gefur lítið fyrir fullyrðingar um kynþáttafordóma
Morgan segir Harry og Meghan einfaldega vera leiðinleg og gaf lítið fyrir fullyrðingar þeirra um kynþáttafordóma í konungsfjölskyldunni.
Í viðtali við Opruh Winfrey í mars í fyrra greindu Harry og Meghan frá því að kynþáttafordómar innan konungshallarinnar hefðu haft áhrif á ákvörðun þeirra um að segja skilið við konungunlegar skyldur sínar og flytja til Kanada, og síðar Bandaríkjanna.
Í viðtalinu kemur fram að þegar Meghan sagði frá kynþáttafordómum sem hún og ófætt barn hennar hefðu orðið fyrir frá fólki í fjölskyldunni var því hins vegar mætt með þrúgandi þögn klukkustundum saman. Og ekki stakt orð barst frá höllinni í tvo sólarhringa um þá höfnun og það afskiptaleysi sem Meghan upplifði, örvingluð og óttaslegin, er hún bað um aðstoð vegna yfirþyrmandi vanlíðunar.
Harry segir í þáttunum að hann sé sífellt að læra eitthvað nýtt um sjálfan sig, meðal annars hvað varðar kynþáttafordóma og hvernig þeir lýsa sér. Hann segist vera stoltur af því að börn hans séu af blönduðum uppruna (e. mixed race).
Löngu skipulagður sannleikur
Harry og Meghan hófu að halda skipulagðar myndbandsdagbækur i mars 2020, þegar þau sögðu sig frá öllum konunglegum skyldum. En það var nokkrum mánuðum áður en tilkynnt var um samning þeirra við Netflix, í september sama ár.
Þetta er því þeirra sannleikur í höndum Netflix-reynslubolta sem sjá til þess að framleiðslan sýni frásögn pars sem varð ástfangið og þurfi að fórna öllu á meðan þau börðust við kerfið, það er konungsfjölskylduna, samskiptareglur og kynþáttafordóma.
En sögunni er ekki lokið. Seinni hluti þáttaraðarinnar, þrír þættir til viðbótar, kemur út 15. desember. Í þeim munu Harry og Meghan fara dýpra í ástæður þess af hverju þau sögðu skilið við konungsfjölskylduna og hvernig „Megxit“-atburðarásin var í raun og veru. Hvort það verði jafn hægeldað og fyrri þrír þættirnir á eftir að koma í ljós.