Seðlabanki Argentínu hefur skipað breska bankanum HSBC að skipta um bankastjóra í útibúi bankans í Argentínu, og gaf bankanum í dag sólarhringsfrest til þess að verða við þessari beiðni. Ástæðan er sú að bankinn er talinn hafa aðstoðað um fjögur þúsund viðskiptavini við að komast hjá skattgreiðslum, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.
Gabriel Martino, bankastjóri HSBC í Argentínu, er sagður hafa trassað það að fara eftir skipunum Seðlabanka Argentínu þegar kom að því að hætta tafarlaust að aðstoða viðskiptavini við að svíkja undan skatti og fara eftir reglum sem koma eiga í veg fyrir peningaþvætti.
Rannsóknin á málum sem tengjast HSBC í Argentínu er umfangsmikil og varðar millifærslu á fjármunum í skattaskjólum upp á samtals 3,5 milljarða Bandaríkjadala, eða tæplega 500 milljarða króna.
Forsvarsmenn bankans hafa neitað því að hafa brotið lög, og segjast ætla að starfa með yfirvöldum að framgangi rannsóknarinnar.