Guðni Einarsson hefur sagt af sér sem trúnaðarmaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ) á Morgunblaðinu. Þetta kemur fram í bréfi Guðna sem stjórn BÍ barst í morgun og greint er frá á vef Blaðamannafélagsins í dag.
„Ástæða þess eru afskipti stjórnar BÍ af auglýsingabirtingu á mbl.is. Með þeim fer stjórn félagsins langt út fyrir sitt hlutverk að mínu mati og það hvorki get ég né treysti mér til að verja sem fulltrúi félagsins á mínum vinnustað,“ segir Guðni.
Forsagan er sú að formaður BÍ, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, sendi bréf um helgina, fyrir hönd stjórnar BÍ, á Harald Johannessen, framkvæmdastjóra Árvakurs, og Magnús Kristjánsson, þar sem stjórnin lýsti óánægju með birtingu auglýsingar Samherja sem hún segir að sé „hluti af ófrægingarherferð gegn Helga Seljan og félögum hans í Kveik“.
Í bréfi stjórnar BÍ segir að á fjölmiðlum séu skörp skil milli auglýsingadeilda og ritstjórna en með þessari auglýsingu hafi verið stigið yfir þá línu því herferð Samherja sé ekki aðeins herferð gegn einum fréttamanni eða einni ritstjórn heldur beinist hún gegn öllum blaðamönnum og öllum ritstjórnum, þar á meðal blaðamönnum á mbl.is.
Telur að stjórnin hafi brotið gegn lögum eigin félags
Guðni bendir á í bréfi sínu til stjórnar að samkvæmt lögum félagsins sé tilgangur þess að gæta „faglegra og stéttarlegra hagsmuna félagsmanna í hvívetna“ (1. gr.). Einnig að „standa vörð um prent- og tjáningarfrelsi“ (1.2 b gr.) og að hafa „áhrif á opinbera stefnu og samfélagslega umræðu um fjölmiðlun og tjáningarfrelsi“ (1.2 d). Síðast en ekki síst: „Að standa vörð um ritstjórnarlegt frelsi og sjálfstæði fjölmiðla“ (1.2 e).
Spy hann hvort stjórnin hafi verið að gæta hagsmuna allra félagsmanna sinna eða að standa vörð um prent- og tjáningarfrelsi. „Var hún að slá skjaldborg um sjálfstæði fjölmiðla? Með ákvörðun sinni tel ég að stjórnin hafi brotið gegn lögum eigin félags. Hún ætti að sjá sóma sinn í að draga gagnrýni sína til baka og að einbeita sér að tilgangi félagsins.“
Segir Guðni að þegar hann byrjaði í blaðamennsku hafi hann lært að „kínamúr“ væri á milli ritstjórnar og auglýsingadeildar. Blaðamenn skiptu sér ekki af auglýsingum og skrifuðu ekki auglýsingaefni og öfugt. Þessi regla hafi almennt gilt á ritstjórnum sem hafa einhvern metnað og sjálfsvirðingu. Telji menn að tilteknar auglýsingar séu meiðandi eða ósannar þá séu leiðir til að taka á því, til að mynda fyrir dómstólum.
„Ekki þarf að fjölyrða um erfið rekstrarskilyrði allra annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins, sem árlega fær hátt meðlag frá skattgreiðendum auk þess að vera fyrirferðarmikið á auglýsingamarkaði. Aðrir útgefendur reiða sig að miklu leyti á auglýsingatekjur og sumir á áskriftartekjur að auki. Það að stéttarfélag blaðamanna skipti sér af tekjuöflun einstakra útgefenda er í mínum huga langt fyrir utan verksvið þess,“ skrifar hann að lokum.