Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, framhaldsskólakennari og forkona jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands, segir að Knattspyrnusamband Íslands hafi varpað frá sér allri ábyrgð með yfirlýsingu sinni á þriðjudag, þar sem sambandið hafnaði því alfarið að taka þátt í að þagga niður ofbeldismál og hylma yfir með gerendum og kallaði ásakanir um annað dylgjur.
Þetta segir Hanna Björg í aðsendri grein á Vísi í dag, en undir lok síðustu viku ritaði hún aðra grein á sama vettvangi sem KSÍ virðist hafa verið að bregðast við með áðurnefndri yfirlýsingu, en helstu forsvarsmenn sambandsins höfðu ekki gefið kost á viðtölum við fjölmiðla vegna skrifa Hönnu Bjargar.
Hanna Björg segir áhugavert að KSÍ hafi kallað málflutning sinn „dylgjur“, „í ljósi þess að þolendur kynferðisofbeldis eru gjarnan sagðir með dylgjur þegar þeir stíga fram og segja frá ofbeldinu.“
Hún segir að KSÍ hvorki svari fréttafólki vegna málsins og að sambandið hafi aukinheldur ekki sýnt minnsta áhuga á að vita hvaða upplýsingum hún sjálf búi yfir um ofbeldi af hálfu landsliðsmanna sem leiddu til greinarskrifa hennar, sem hafa vakið mikla athygli.
Segir KSÍ hafa sent þolendum kaldar kveðjur
Í fyrri grein sinni vísaði Hanna Björg til frásagnar ungrar konu af kynferðislegu ofbeldi sem hún varð fyrir árið 2010. Gerendurnir voru sagðir hafa verið landsliðsmenn Íslands í fótbolta.
„Hversu kaldar geta kveðjurnar verið til þolenda? Í yfirlýsingu KSÍ er ekki eitt orð um eða til þeirra. Ekki snefill af samkennd eða skilningi. Skeytingarleysið er algert. KSÍ sýnir engan vilja til að axla ábyrgð, enga auðmýkt, samkennd, tengsl við raunveruleikann og sannleikann,“ skrifar Hanna Björg í grein sinni í dag, þar sem hún fullyrðir að Guðni Bergsson formaður KSÍ og forysta sambandsins viti af því kynferðisofbeldi sem Hanna Björg gerði að umræðuefni í fyrri grein sinni.
„Það eru of mörg sem vita að Guðni segir ósatt í yfirlýsingunni til að unnt sé að halda öðru fram. Frá því að greinin mín um KSÍ og kvenfyrirlitningu birtist sl. föstudag hefur rignt yfir mig skilaboðum og símtölum. Öll á einn veg; stuðningur, hvatning og staðfestingar um ofbeldi af því tagi sem er tíundað í greininni. Eina undantekningin var aðili sem hafði áhyggjur af því að allt landsliðið lægi undir grun. Þar er þó hvorki við mig né þolendur að sakast heldur KSÍ sem þegir og gerendur sem hafa fengið tækifæri til að stíga fram og axla ábyrgð, en ekki gert,“ skrifar Hanna Björg í greininni.
Þar segir hún jafnframt að í hennar huga séu viðbrögð KSÍ vegna þessa máls sorgleg og að ef samfélagið láti viðbrögð KSÍ óátalin sýni það að við séum „ekki tilbúin til að uppræta kynferðislegt ofbeldi gegn konum og öðrum kynjum.“
Hún segir að börn og ungmenni eigi meira skilið en að alast upp við það að ofbeldi sé ekki talið ámælisvert.
„Að fyrirmyndir þeirra og átrúnaðargoð séu ofbeldismenn og enginn geri neitt í því. Það er hörmulegt og hættulegt.
KSÍ þarf að taka gerendur ofbeldis úr landsliðinu,“ skrifar Hanna Björg.