Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að faglega hafi verið staðið að öllu þegar ákvörðun um áfrýjun í máli hennar gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, var tekin. Lilja hafi ráðfært sig við settan ríkislögmann strax eftir að dómur héraðsdóms lá fyrir og gaumgæfilega hafi verið farið yfir dóminn.
Forsaga málsins er sú að kærunefnd jafnréttismála komst að því að Lilja hefði brotið jafnréttislög með ráðningu Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Lilja stefndi Helgu í kjölfarið til að fá úrskurðinum hnekkt. Héraðsdómur féllst ekki á kröfur Lilju með dómi sínum og þeim dómi hefur Lilja nú áfrýjað til Landsréttar.
Lilja var til svara í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag þar sem hún var spurð út í vandræði vegna samræmdra prófa og út í áfrýjun dómsmáls hennar til Landsréttar. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, beindi fyrirspurn sinni um áfrýjunina til Lilju.
„Þögn Framsóknarráðherranna um þetta mál hefur verið ærandi“
Þorbjörg Sigríður hóf mál sitt á því að vekja athygli á því hversu skamman tíma það tók menntamálaráðherra að ákveða áfrýjun. „Það tók hana reyndar umtalsvert lengri tíma að treysta sér í viðtal við fjölmiðla um þetta sama mál og ég get ekki séð að ráðherranum hafi legið sérstaklega á að taka ákvörðun um áfrýjun. Venjan er nefnilega sú að lögmenn þeir rýna dóma og meta það hvort ástæða og efni séu til að fara af stað og hafa frest til þess í nokkrar vikur,“ sagði Þorbjörg Sigríður.
Hún sagði málið vondan dóm um jafnréttismál Framsóknarflokksins, flokks ráðherrans, og að þögn ráðherra flokksins vegna málsins hefði verið „ærandi“. Hún sagði skipunina sem málið snýst um varða bæði hagsmuni stjórnsýslunnar og hagsmuni alls almennings. Hún sagði að ráðherra hefði vissulega mikið svigrúm í ráðningum, krafan væri sú að ráðherra gæti á endanum rökstutt ráðningu. Rökstuðningur ráðherra hefði fengið falleinkunn hjá kærunefnd og aftur fyrir dómi. Þorbjörg spurði ráðherra í lok fyrirspurnar sinnar um það við hvern hún hefði ráðfært sig áður en ákvörðun um áfrýjun var tekin og á hvaða lögfræðilega grunni sú ákvörðun væri byggð.
Gaumgæfilega farið yfir málið fyrir áfrýjun
Lilja byrjaði á að taka það fram að faglega hefði verið staðið að öllu í tengslum við áfrýjunina. Þegar úrskurður kærunefndarinnar lá fyrir þá hefði hún leitað sér lögfræðilegrar ráðgjafar vegna þess að henni fannst málið alvarlegt.
„Eitt af því sem að kemur fram í þeim lögfræðiálitum sem ég aflaði mér á sínum tíma er það að það þótti ekki vera nægilega vel rökstutt að ráðherra hefði mismunað viðkomandi aðila byggt á kynferði. Og þetta kemur fram í þeim álitum sem ég aflaði mér á sínum tíma,“ sagði Lilja. Hún hefði ráðfært sig við settan ríkislögmann og þau farið gaumgæfilega yfir málið áður en til áfrýjunar kom.
„Að sjálfsögðu var málið undirbúið á sínum tíma. Það er mjög brýnt og faglega var staðið að öllu,“ sagði Lilja.
Ákvörðunin byggi á persónulegum skoðunum ráðherra
„Ég get ekki séð að ráðherra sem að hefur hlotið dóm fyrir brot gegn jafnréttislögum geti staðið hér í pontu og talað um að faglega hafi verið staðið að málum,“ svaraði Þorbjörg þegar hún beindi fyrirspurn til ráðherrans síðara sinni. Hún sagði dóminn einmitt sýna að ekki hefði verið staðið faglega að málum.
Þá sagði hún hagsmuni ríkisins ekki vera undir í málinu. „Þegar íslenska ríkið stendur í málaferlum þá á það að vera vegna þess að það eru einhverjir hagsmunir að baki fyrir íslenska ríkið, fyrir íslenskan almenning. Ákvörðun sem byggir á persónulegum skoðunum ráðherra þjónar allt öðrum og verri tilgangi.“