Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir við mbl.is að hún hafi viljað sýna samkennd með Loga Bergmann Eiðssyni fjölmiðlamanni, sem hún tengist vinaböndum, með því að setja læk við yfirlýsingu sem hann birti í gær. „Á erfiðum tímum reyni ég að sýna þeim sem standa mér nærri samkennd, það má gera með öðrum hætti en ég gerði. En í því felst engin afstaða né vantrú á frásagnir þolenda.“
Í samtalinu segir Áslaug Arna að störf sín, lagabreytingar og barátta í dómsmálaráðuneytinu og sem þingmaður þar á undan segi meira um afstöðu sína í þessum málum en nokkuð annað. „Ég aftur á móti skil vel þá umræðu sem á sér stað, og ég þarf að vanda mig í þessu eins og öðru.“
Auk þess hún hefur sett fram ásakanir um illa meðferð og framkomu gagnvart Arnari Grant, sem hún átti í ástarsambandi við. Vítalía hefur meðal annars sagt Arnar hafa látið sig gera kynferðislega hluti við aðra menn gegn vilja hennar.
Málið vatt upp á sig á þriðjudag þegar Vítalía steig fram í viðtali við Eddu Falak í hlaðvarpinu Eigin konur og rakti það sem komið hefði fyrir hana.
Hún nefndi mennina ekki á nafn og setti auk þess fram ásökun á hendur öðrum manni vegna atviks sem átti sér stað síðar. Sá maður er Logi Bergmann.
Sagðist saklaus á þeim sökum sem á hann hefðu verið bornar
Logi Bergmann birti yfirlýsingu á Facebook í gær vegna málsins. Þar sagði: „Ég er saklaus af þeim sökum sem á mig hafa verið bornar undanfarna daga. Ég hef alla mína ævi haft andstyggð á hvers kyns ofbeldi, staðið með fórnarlömbum þess og stutt baráttu þeirra í gegnum tíðina. Ekkert er fjær mér en að þröngva annarri manneskju til kynferðislegra athafna.“
Logi Bergmann sagðist hins vegar vera sekur um að hafa farið yfir mörk í einkalífi fólks með því að hafa farið inn í herbergi sem hann átti ekki að fara inn í. „Það var taktlaust og heimskulegt og ég hef þegar tjáð viðkomandi að ég taki ábyrgð á því og mér þyki það leitt.“
Áslaug Arna var ein þeirra sem lækaði færslu Loga. Ýmsir hafa gagnrýnt ráðherrann fyrir lækið í ljósi þess að Áslaug Arna er fyrrverandi dómsmálaráðherra og tók meðal annars þátt í myndbandi með yfirskriftinni „Ég trúi“ þar sem þekktir einstaklingar lýstu yfir stuðningi við þolendur kynferðisafbrota.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Áslaug Arna kemst í fréttirnar vegna umræðu um „læk“ en í byrjun september á síðasta ári gagnrýndi hún Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara fyrir framgöngu hans á samfélagsmiðlum. Hún taldi að hann mætti ekki rýra traust og trú almennings með framgöngu sinni á opinberum vettvangi.
Hún vildi ekki tjá sig um gagnrýni sína á Helga Magnús þegar mbl.is spurði hana út í málið.