„Salan í Íslandsbanka er svo mikið sukk og svínarí að bæði þarf að leita leiða til að rifta henni og draga menn til ábyrgðar.“
Þetta skrifar Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
Hún segir að ekki sé nóg með að „skúrkar úr bankahruninu“ hafi komist bakdyramegin inn heldur virðast dyr lánastofnana hafa staðið þeim opnar til lántöku fyrir góssinu.
„Fjöldi kaupenda seldi strax og græddi milljarða á „einni nóttu“ af almannaeign. Spillingin gerist vart svæsnari. Nú þarf að virkja lög um ráðherraábyrgð, sem Alþingi hefur heykst á að breyta þrátt fyrir kröfu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu þar um.
Þeim lögum ætlaði mín ríkisstjórn að láta breyta á árinu 2010 en fosætisnefnd Alþingis sagði að það væri verkefni Alþingis en ekki forsætisráðherra að leggja fram frumvarp þar að lútandi. Ég skora á Alþingi að breyta þegar í stað þessum lögum en frumvarp liggur fyrir um það frá Samfylkingunni og Pírötum,“ skrifar Jóhanna.
https://kjarninn.is/.../stor-hluti-theirra-sem-fengu-ad.../ Salan í Íslandsbanka er svo mikið sukk og svínarí að bæði...
Posted by Jóhanna Sigurðardóttir on Thursday, April 14, 2022
Margir selt sig niður að einhverju eða öllu leyti
Vísar Jóhanna í grein Kjarnans frá því fyrr í vikunni þar sem fram kom að alls væru 132 þeirra 207 fjárfesta sem fengu úthlutað hlutum í Íslandsbanka í nýlegu lokuðu útboði ekki lengur skráðir fyrir sama hlut og þeir fengu úthlutað.
Margir þeirra hefðu selt sig niður að einhverju eða öllu leyti. Heimildarmenn Kjarnans innan bankakerfisins segja að í flestum tilvikum séu viðkomandi einfaldlega búnir að selja hlutinn og leysa út hagnaðinn af því að hafa fengið að taka þátt í útboðinu með afslætti. Í einhverjum tilvikum hafi verið framvirkir samningar við þá og viðkomandi fengið lán fyrir kaupunum sem hafi svo verið gert upp strax á fyrstu dögum eftir að hægt var að selja að nýju. Það sem eftir sat lenti svo í vasa viðkomandi fagfjárfestis sem hreinn hagnaður.
Í öðrum tilvikum hafi hluturinn þó verið fluttur á vörslureikninga í eignarstýringu viðkomandi. Ómögulegt er að sjá af hluthafalistanum hverjir færðu bréfin sín með þeim hætti og hverjir seldu. Velta með bréf í Íslandsbanka, þar sem sem þau eru keypt og seld, daganna eftir að útboðinu lauk var margföld það sem hún var að meðaltali á dag frá áramótum og fram að útboði. frá 23. mars og til 11. apríl höfðu um 152,6 milljónir hluta skipt um eigendur. Það er um þriðjungur þess sem selt var í útboðinu.