Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir það ófaglegt af Persónuvernd að saka ráðuneytið sem hann stýrir um að leyna upplýsingum eða nota Persónuvernd sem skálkaskjól. Í stöðuuppfærslu á Facebook skrifar Kristján Þór að hann vísi þessu á bug sem „hreinum rógburði“. „Ég hef óskað eftir að ráðuneytið boði fulltrúa Skattsins og Persónuverndar til fundar til að fara nánar yfir þessi atriði og ákveða næstu skref. Þau verða tekin af fagmennsku og virðingu fyrir þeim reglum sem um efnið gilda. Hér eftir sem hingað til.“
Persónuvernd sendi á þriðjudag bréf til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í tilefni framlagningar skýrslu Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins sem birt var fyrir skemmstu.
Í bréfinu gerði Persónuvernd alvarlegar athugasemdir við svar við spurningu sem finna má í skýrslunni þar sem því var haldið fram að persónuverndarlög hömluðu því að Skatturinn, sem vann skýrsluna, gæti birt upplýsingar um raunverulega eigendur félaga. Var þar meðal annars vísað í úrskurð Persónuverndar frá 15. júní síðastliðnum þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að víðtæk birting heildarhluthafalista margra stærstu fyrirtækja landsins á vef Skattsins væri ekki heimil lögum samkvæmt.
Í bréfi Persónuverndar sagði að í skýrslunni væru ýmsar rangfærslur sem Persónuvernd taldi ástæðu til að leiðrétta. Þar kom meðal annars fram að úrskurðurinn frá því í júní hafi einungis náð til upplýsinga um hlutafjáreign einstaklinga, ekki fyrirtækja eða annarra lögaðila sem njóti ekki sömu verndar. Varðandi tilvísun Skattsins um að ekki væri heimilt að birta upplýsingar um raunverulega eigendur sagði Persónuvernd að hún sé einfaldlega röng.
Unnið í opnu og gegnsæju ferli
Kristján Þór segir í stöðuuppfærslu sinni að skýrslan hafi verið unnin af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við Skattinn. „Unnið var í opnu gagnsæju ferli milli stjórnkerfisins og Alþingis. Þegar ríkisaðilar telja að vafi leiki á því hvort hægt sé að veita umbeðnar upplýsingar eru gefnar skýringar til Alþingis. Það átti við í þessu tilviki að Skatturinn taldi vafa leika á um hvort persónuverndarlög stæðu því í vegi að tilteknar upplýsingar væri unnt að veita. Þar fyrir utan er ljóst að skipulögð skráning á raunverulegum eigendum hófst ekki fyrr en á árinu 2019 þegar lög um efnið voru samþykkt. Það torveldar upplýsingasöfnun um efnið frá árinu 2016 eins og óskað var eftir í skýrslubeiðninni.“
Hann segir að ráðuneytið taki lagaskyldu sína til að sinna upplýsingagjöf til Alþingis alvarlega og að það hafi upplýst, en engu leynt, um forsendur og aðferðir við undirbúning skýrslunnar. „Ef önnur lagatúlkun en sú sem Skatturinn hefur stuðst við getur opnað fyrir frekari upplýsingar frá Skattinum er fullur vilji hjá ráðuneytinu til þess að láta taka þær saman. Slík upplýsingagjöf er þó ávallt háð því að gögnin séu yfir höfuð til.“
Sýndi ekki umsvif útgerða í ótengdum rekstri
Kjarninn fjallaði ítarlega um skýrsluna þegar hún var loks birt 25. ágúst síðastliðinn, átta mánuðum eftir að beiðni um gerð hennar var samþykkt. Skýrslan sýndi hvorki krosseignartengsl eða ítök útgerðarfélaganna í einstökum fyrirtækjum.
Niðurstaða skýrslunnar er að 20 stærstu útgerðir landsins hafi, beint eða í gegnum tengd eignarhaldsfélög og dótturfélög, átt bókfærða eignarhluti í öðrum félögum en útgerðarfélögum upp á 176,7 milljarða króna í árslok 2019. Sú eign var bókfærð á 137,9 milljarða króna árið 2016.
Ekki er tilgreint með neinum hætti um hvaða eignir er að ræða.
„Hvað er verið að fela?“
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar og fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar, sagði í samtali við Kjarnann að skýrslan væri sannarlega ekki það sem beðið var um.
Hún viti ekki hvort hún eigi að hlægja eða gráta þegar hún les skýrsluna. „Ég hallast frekar að því að hlægja. Það er eitthvað fyndið við að þetta skuli verða niðurstaðan. Að stjórnvöld skuli hafa ákveðið að fara þessa leið til að forðast að umbeðnar upplýsingar kæmust fyrir augu almennings fyrir kosningar.
Hanna Katrín sagði þær tölur sem settar voru fram í skýrslunni ekki sýna krosseignartengsl eða ítök útgerðarfélaga í íslensku atvinnulífi. „Þetta varpar fyrst og fremst fram þeirri spurningu: hvað er verið að fela?“