Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að hann hafi ekki haft vitneskju um þátttöku föður síns, Benedikts Sveinssonar, í útboði Bankasýslu ríkisins á hlut í Íslandsbanka sem fram fór þann 22. mars fyrr en í gær.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun.
Bankasýsla ríkisins sendi í gær yfirlit yfir kaupendur að 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem birti listann á vef Stjórnarráðsins.
Þar kemur fram að Hafsilfur ehf., félag í eigu Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna, hafi keypt hlut í Íslandsbanka fyrir tæplega 55 milljónir króna í útboðinu. Veittur var rúmlega fjögurra prósenta afsláttur á markaðsvirði í útboðinu.
Bjarni ítrekar við Morgunblaðið að hann hafi ekki komið að ákvörðun um úthlutun til einstakra aðila. „Bankasýslan er sjálfstæð stofnun sem útfærir söluna í samræmi við lög sem gilda.“
Vildu ekki birta upplýsingarnar
Bankasýslan ítrekaði í bréfi til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í gær þá afstöðu sína að hún teldi ekki heimilt að birta þær upplýsingar sem ráðuneytið óskaði eftir. „Aftur á móti er stofnuninni, sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðherra, skylt að afhenda ráðuneytinu umbeðnar upplýsingar um úthlutanir til þátttakenda í útboðinu í ljósi stjórnsýslulegrar stöðu og forræðis ráðherrans á sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.“
Ráðuneytið segist hafa lagt sjálfstætt mat á þær röksemdir sem settar hafa verið fram fyrir því að framangreint yfirlit falli undir bankaleynd. „Að mati ráðuneytisins falla upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta ekki undir bankaleynd og með hliðsjón af mikilvægi þess að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinberra hagsmuna hefur ráðherra ákveðið að birta yfirlitið.“
Í tilkynningu ráðuneytisins kemur einnig fram að síðastliðinn föstudag hafi ráðuneytið óskað eftir afstöðu fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til þess hvort lagaákvæði um bankaleynd stæðu því í vegi að upplýsingar um kaupendur og um eignarhlut sem hverjum og einum var seldur, yrðu gerðar aðgengilegar almenningi. Ráðuneytinu hafði ekki borist svar frá Seðlabankanum áður en ákvörðun var tekin um að birta listann.
Ráðuneytið vissi ekki hverjir tóku þátt í útboðinu
Bjarni segir í samtali við Morgunblaðið að það hafi verið mat ráðuneytisins að birting yfirlitsins væri í samræmi við lög, en um það hefur verið deilt síðustu daga. „Það er mat okkar að þegar verið er að selja ríkiseign til hæfra fjárfesta eins og í þessu tilviki, þá eigi bankaleynd ekki við,“ segir hann.
Hann segir að ráðuneytið hafi kallað eftir afstöðu fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til þess hvort lagaákvæði um bankaleynd stæðu því í vegi að upplýsingar um kaupendur og um eignarhlut sem hverjum og einum var seldur, yrðu gerðar aðgengilegar almenningi, en svar við því hafði ekki borist í gær, eins og áður segir.
Bjarni segir jafnframt að ráðuneytið hafi ekki haft upplýsingar um það hverjir tóku þátt í útboðinu fyrr en yfirlitið barst ráðuneytinu í gær. „Við höfðum fengið upplýsingar um meginniðurstöður og það hvernig úthlutun var háttað, en ekki yfirlit yfir þá sem fjárfestu eða tóku þátt.“