Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ætla að nýta innrás Rússlands í Úkraínu til að koma nýju útlendingafrumvarpi í gegn á Alþingi. Andrés Ingi vísaði í orð ráðherra í útvarpsviðtali í morgun þar sem hann sagðist vona til að kynna nýtt útlendingafrumvarp fyrir ríkisstjórninni í næstu viku „sem mun leysa þessi brýnu mál.“
„Og hver eru þessi brýnu mál?“ spurði Andrés Ingi í upphafi þingfundar í dag. „Jú, honum finnst ekki ganga nógu vel að sparka flóttafólki úr landi. Það vantar lagaheimild til að þvinga þau til líkamsrannsóknar, hann vantar lagaheimild til að geta vísað þeim allslausu á götuna í Grikklandi. Þetta ætlar hann að nota Úkraínustríðið til að réttlæta. Það er ógeðslegt að nota stríð í Úkraínu sem átyllu fyrir því að svipta fólk á flótta mannréttindum. Ógeðslegt að ríkisstjórnin ætli að gera það,“ sagði Andrés Ingi.
Orð dómsmálaráðherra í viðtölum síðustu daga hafa vakið athygli, ekki síst meðal stjórnarandstöðuþingmanna.
Ráðherrann sagði „hreint neyðarástand“ ríkja hjá Útlendingastofnun sem lýsti sér meðal annars í því að flóttamenn sem eru hér fyrir „teppi húsnæði og aðstöðu fyrir aðra sem við myndum vilja taka á móti“.
Andrés Ingi segir að nú reyni á samstarfsfólk dómsmálaráðherra í ríkisstjórn um það hvort það hleypi „þessum viðbjóði í gegnum ríkisstjórn og þingflokka, hvort það ætli að taka þátt í stríði Jóns Gunnarssonar gegn réttindum fólks á flótta eða taka sér stöðu með mannúðinni.“
„Hann ætti að gæta orða sinna “
Forseti Alþingis bað Andrés Inga að gæta orða sinna og gæta að orðavali. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, tók næst til máls og sagði hæstvirtan dómsmálaráðherra einmitt mega gæta orða sinna.
„Hann ætti að gæta orða sinna áður en hann egnir viðkvæmum hópum uppi á mótu hvorum öðrum í einhvers konar tindátaleiks hans sjálfs. Það er nefnilega virkilega ógeðslegt að egna svona hópum upp á móti hvorum öðrum. Að notfæra sér stríðið í Úkraínu til þess að vísa hópi flóttamanna á götuna í Grikklandi.“
Þórhildur Sunna minnti á að um sama hóp er að ræða og Útlendingastofnun neitaði að veita þjónustu ef þeir gengust ekki undir PCR-próf. Ákvörðun sem kærunefnd útlendingamála felldi úr gildi í júní í fyrra þar sem hún taldi stofnunina ekki hafa heimild í lögum til að beita sér með þeim hætti sem hún gerði.
Krefur ríkisstjórnina um betri svör
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagðist eiga erfitt með að átta sig á orðræðu ríkisstjórnarinnar um hvernig eigi að bregðast við flóttamannavandanum. Hann sagði tímann í þingsal mikilvægan.
„Þess vegna skil ég ekki hvers vegna ríkisstjórnin kemur með svona útspil í stað þess að svara okkur strax: Hvernig á að bregðast við flóttamannavandanum frá Úkraínu? Ekki með því að segja: Við verðum nú fyrst að losa okkur við þá sem við erum með hérna áður en við getum tekið á móti einhverjum öðrum. Það finnst mér algjörlega óásættanlegt og við þurfum að fá betri svör frá ríkisstjórninni um það hvað á að gera sem fyrst því að vandinn er þess eðlis.“
Stjórnarþingmennirnir Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins og Orri Páll Jóhannsson, þingmaður Vinstri grænna, tóku einnig til máls og frábað Jóhann Friðrik sér þá umræðu um að ríkisstjórnin muni ekki standa við orð sín um móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Orri Páll tók undir. „Auðvitað munum við vera þjóð meðal þjóða þegar kemur að því að aðstoða flóttafólk sem er í þessum hræðilegu aðstæðum sem við horfum upp á breytast frá mínútu til mínútu í Úkraínu.“
Andrés Ingi tók þá til máls að nýju og sagðist ekki vera viss um að stjórnarþingmennirnir hefðu heyrt umræðuna.
„Við vorum ekkert að tala um það hvort Ísland ætlaði að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu. Ég held að það liggi fyrir að það standi til. Það sem við erum hins vegar að gagnrýna er að hæstvirtur dómsmálaráðherra ætlar að nýta ferðina, ætlar að nota flóttafólkið frá Úkraínu sem átyllu fyrir því að koma í gegn frumvarpi, sem hann er fjórði ráðherra þessarar ríkisstjórnar til að reyna að koma í gegn, frumvarpi sem snýst eingöngu um það að geta sparkað fólki hraðar úr landi,“ sagði Andrés Ingi.