Embætti skattrannsóknarstjóra telur að frumvarp sem færir rannsókn á meiriháttar skattrannsóknum til héraðssaksóknara muni valda meiri skaða en gagni. Hætta sé á að sérfræðiþekking tapist. Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir embættið misskilja frumvarpið.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið tekur ekki undir athugasemdir embættis skattrannsóknarstjóra um breytingar á núverandi skipan skattrannsókna og telur þær byggðar á misskilningi. Þetta kemur fram í minnisblaði sem ráðuneytið hefur skilað inn til efnahags- og viðskiptanefndar sem hefur frumvarp um breytingarnar til meðferðar.
Kjarninn greindi frá því 21. mars að embætti skattrannsóknarstjóra hefði í athugasemd um frumvarpið sagt að áform um að breyta núverandi skipan skattrannsókna á þann hátt að færa rannsókn á þeim brotum sem teljast meiriháttar til embættis héraðssaksóknar gangi gegn tilgangi frumvarps til laga sem eigi að koma í veg fyrir tvöfalda refsingu og tvöfalda málsmeðferð.
Verði frumvarpið að lögum leggst embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins af sem sjálfstæð stofnun en verður þess í stað eining innan Skattsins sem ætlað verður að fara með rannsókn þeirra skattalagabrota sem ætla má að ljúka megi innan skattkerfisins.
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar, sem samanstendur af þingmönnum stjórnarflokkanna þriggja, hefur þegar afgreitt frumvarpið til annarrar umræðu með nefndaráliti. Þar er ekki tekið tillit til athugasemda skattrannsóknarstjóra og lagt til að lögin öðlist gildi 1. maí næstkomandi.
Gert ráð fyrir samstarfi stofnana
Þessu er fjármála- og efnahagsráðuneytið ósammála, en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði frumvarpið fram.
Í minnisblaðið ráðuneytisins, sem er dagsett 22. mars, segir að ávallt hafi verið gert ráð fyrir samstarfi stofnana í frumvarpinu og í því skyni gert ráð fyrir að ríkissaksóknari gefi nánari fyrirmæli um hvaða málum skuli vísað til rannsóknar lögreglu. í greinargerðinni eru sett viðmið fyrir ríkissaksóknara um til hvers eigi að líta við gerð fyrirmælanna. Með frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði sektarheimildir skattrannsóknarstjóra og þær auknar verulega. Markmiðið er að koma í veg fyrir tvöfalda refsingu innan skattkerfisins og telur ráðuneytið að skurðpunkturinn um hvaða málfari í refsimeðferð hjá lögreglu eða hljóti meðferð innan skattkerfisins sé skýr. Þungi mála mun liggja hjá Skattinum, verði frumvarpið að lögum, en stærstu og alvarlegustu málin hjá héraðssaksóknara.“
Ráðuneytið tekur undir með því sem fram kemur í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarpið að eðlilegt sé að breytingar taki tíma en með ríkri samvinnu megi leysa úr þeim vandkvæðum sem upp kunni að koma. „ Þá er það mat ráðuneytisins að verði frumvarpið samþykkt leiði það til aukinna tækifæra til samþættingar á nýtingu upplýsinga innan skattkerfisins.“
Ekki tekið fyrir tvöfalda refsingu í dómi
Forsaga frumvarpsins er sú að þann 18. maí 2017 komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirra niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni þegar þeir voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums árið 2013, ásamt Kristínu Jóhannesdóttur.
Þeir kærðu þann dóm til Mannréttindadómstólsins á þeim forsendum að þeir hefðu þegar hlotið dóm fyrir sömu brot. Þeir höfðu verið dæmdir til að greiða álag ofan á endurákvörðun skatta af yfirskattanefnd árið 2007. Málin tvö hefðu verið byggð á sama grunni. Og því væri verið að refsa þeim tvívegis fyrir sama brotið.
Fram að þeim tíma hafði það tíðkast hérlendis að þeir sem sviku stórfellt undan skatti skyldu greiða hátt álag ofan á þá vangoldnu skatta sem þeir skyldu endurgreiða. Ef um meiriháttar brot var að ræða þá var viðkomandi einnig ákærður fyrir meiri háttar skattalagabrot, en við slíkum brotum liggur allt að sex ára fangelsi auk þess sem viðkomandi þarf að að greiða sekt.
Þegar Mannréttindadómstóllinn hafði komist að niðurstöðu þá þurfti að falla dómur í Hæstarétti um sambærilegt efni til að fram komi hver áhrif niðurstöðunnar verði á íslenska dómaframkvæmd.
Sá dómur féll í lok september 2017.
Í dómi Hæstaréttar var því ekki tekið fyrir tvöfalda refsingu. Þar var hins vegar, með vísun í dóm Mannréttindadómstólsins í norsku máli sem féll um ári áður og í mál Jóns Ásgeirs og Tryggva, sagt að sýna þyrfti fram á að sakarefni sem sé til meðferðar hjá bæði skattyfirvöldum og í sakamálarannsókn séu þannig tengd að þau myndi eina samþætta heild að efni til. „Þetta feli ekki eingöngu í sér að markmiðin sem að er stefnt og aðferðirnar til að ná þeim séu til fyllingar heldur jafnframt að afleiðingar þess lögbundna fyrirkomulags feli það í sér að rekstur tveggja mála sé fyrirsjáanlegur og að gætt sé meðalhófs,“ segir í dómi Hæstaréttar.
Kjarninn greindi frá því að í lok árs 2017 að embætti héraðssaksóknara hafi þurft að fella niður 66 mál vegna þess að rannsókn þeirra féll ekki innan þess tímaramma sem dómurinn sagði til um.