Allir Danir munu fá boð um örvunarskammt, þriðja bóluefnaskammtinn gegn COVID-19, sex mánuðum og 14 dögum eftir að þeir fengu sinn annan bóluefnaskammt.
Frá þessu greindi heilbrigðisráðherrann Magnus Heunicke í dag, en fjallað er um málið á vef DR.
„Þetta þýðir að í næstu viku munum við senda mörg boð út – aðallega til fólks yfir 65 ára aldri og starfsmanna í heilbrigðis- og öldrunargeiranum og fólks sem er með laskað ónæmiskerfi,“ er haft eftir ráðherranum í frétt DR.
Danir hafa frá því í september verið að bólusetja íbúa á hjúkrunarheimilum og aðra viðkvæma hópa í þriðja sinn. En nú er búið að taka ákvörðun um að bjóða öllum þriðja skammtinn og það eftir nákvæmlega sex mánuði og fjórtán daga.
Af hverju sex mánuðir og 14 dagar? spurði fréttamaður DR.
Ráðherrann svaraði því til að það mat hefði verið í höndum heilbrigðisyfirvalda. Í máli hans kom fram að í ljós hefði komið að sex mánuðum eftir að fólk hefði fengið tvo skammta væru dæmi um að virkni efnanna færi þverrandi hjá þeim sem eldri eru og þeim sem hefðu laskað ónæmisviðbragð.
Útilokar ekki reglulegar bólusetningar
Spurður um hvort hann gæti útilokað að öll danska þjóðin yrði framvegis bólusett gagnvart COVID-19 með hálfs árs millibili sagði ráðherrann að það væri ekki það sem áætlanir gerðu ráð fyrir. „En við erum viðbúin því að allt geti gerst“.
Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um örvunarskammta fyrir allan almenning hér á landi, en í ágústmánuði var byrjað að bjóða upp á örvunarskammt með mRNA bóluefni fyrir fólk yfir 70 ára aldri. Einnig voru þeir sem fengu bóluefni Janssen boðaðir í örvunarskammta.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ræddi við RÚV um örvunarskammta þann 20. september. Þá sagði hann að óljóst væri hvort þriðji skammturinn yrði gefinn öllum almenningi hér á landi.
„[Þ]að er ekki ljóst á þessari stundu og engin ákvörðun verið tekin um það. Því það getur verið að ónæmið minnki með tímanum sem krefjist þess að það þurfi að gefa þriðja skammtinn,“ sagði Þórólfur Guðnason.