Sá hlýjasti frá upphafi mælinga
Nóvember, ellefti mánuður ársins, var hlýr um allt land og meðalhiti var sá hæsti sem mælst hefur í nóvember á landsvísu. Hann var um þremur gráðum hlýrri en að meðallagi og sló naumlega hitamet nóvembermánaðar frá 1945, segir í samantekt Veðurstofu Íslands.
Og hann var með hlýjustu nóvembermánuðum sem mælst hafa á mörgum veðurstöðvum, t.a.m. sá hlýjasti frá upphafi mælinga í Grímsey, á Teigarhorni og á Hveravöllum, og aðeins einu sinni hefur mánaðarmeðalhiti nóvember verið jafn hár í Árnesi.
Samkvæmt Trausta Jónssyni veðurfræðingi var mánuðurinn sá hlýjasti á öldinni á spásvæðum allt frá Breiðafirði norður og austur um og að og með Austurlandi að Glettingi.
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 7,3 stig á Steinum undir Eyjafjöllum.
Hæsti hiti sem mældist á landinu var 16,3 stig á Miðsitju í Skagafirði þann 13 nóvember. Lægstur mældist hitinn -15,5 stig þennan sama dag í Svartárkoti.
Aldrei meiri úrkoma á ellefu mánuðum í Reykjavík
Mjög úrkomusamt var í mánuðinum á Austurlandi. Nýliðinn mánuður var t.a.m. næst úrkomusamasti nóvembermánuður í 85 ára langri mælisögu á Dalatanga, þar sem úrkoman mældist 375,5 mm.
Það sem af er ári hefur verið sérlega úrkomusamt í Reykjavík. Heildarúrkoma fyrstu ellefu mánaða ársins hefur aldrei mælst meiri í borginni. Í janúar til nóvember mældust 1031,3 mm í Reykjavík sem er 32% umfram meðalheildarúrkomu sömu mánaða árin 1991 til 2020 og 24% umfram meðallag undanfarins áratugar.
Nær snjólaust á miðhálendinu
Nýliðinn nóvember var einnig sá hlýjasti á öldinni á miðhálendinu. Þar er að sögn Trausta meðalfrávik í hita miðað við síðustu tíu ár mest. „Nær algjört snjóleysi var á veðurstöðvum á þessum slóðum allan mánuðinn sem hann segir óvenjulegt.“
Aldrei jafnstríð austanátt í háloftunum
Meginástæða þessara hlýinda er rakin til stöðugrar suðaustanáttar. „Austanátt háloftanna hefur aldrei verið jafnstríð í nóvember,“ bendir Trausti á, „og sárasjaldan í öðrum mánuðum“.
Síðasti miðvikudagur nóvember „rammaði inn“ hið óvenjulega tíðarfar mánaðarins, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á Facebook-síðu sinni. Þá urðu talsvert áköf en skammvinn hlýindi „þegar fleygur af lofti með suðlægan uppruna“ fór norðaustur yfir landið.
Maríuerla enn á landinu
„Maríuerla á Laugarvatni rétt í þessu. Það er óvenjulegt. Sást líka fyrir viku.“ Þetta skrifaði fuglafræðingurinn Tómas Grétar Gunnarsson á Facebook í gær. Maríuerlan er farfugl og flýgur að öllu jöfnu héðan að hausti og alla leið til Vestur-Afríku. En góðviðrið á landinu síðustu vikur og mánuði hefur ef til vill ruglað hana í ríminu.
Tómas var spurður hvort að þessi litli fagri fugl, sem er í miklu uppáhaldi hjá mörgum Íslendingum, geti lifað af veturinn hér. „Það er ólíklegt nema hún komist einhvers staðar inn þar sem hún finnur pöddur,“ svarar Tómas. „Maríuerlur hafa lifað af vetur hér í gróðurhúsum og útihúsum.“
Meiri sól, meiri sól, meiri sól
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 40,8 í nóvember, en það er 1,1 stund yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundir mánaðarins 8,8, eða 6,4 stundum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020. Það sást því oftar til sólar en við eigum yfirleitt að venjast.
Og það er vissulega ágætt að þurfa ekki að skafa snjó af bílnum á morgnana eða vaða hann upp að hnjám á leið í strætó eða á göngu til vinnu og skóla. Og síðustu vikur hefur fólk notað reiðhjólin sín og rafskutlur til að komast ferða sinna enda hvorki hálku né snjó fyrir að fara. En snjórinn lýsir upp skammdegið og það hefur því verið sérlega dimmt, sérstaklega í vætunni, þegar fólk er helst á ferli að morgni og síðdegis.
En örvæntið eigi. Snjórinn mun koma. Og það hlýtur að fara að styttast í þau sjálfsögðu tímamót.