Reglugerð um aðgerðir vegna kórónuveirunnar á landamærum var breytt í dag, og elti Ísland þar með fleiri ríki hins vestræna heims sem hafa gripið til aðgerða vegna ótta við útbreiðslu nýs afbrigðis kórónuveirunnar sem hefur fengið nafnið „Ómíkrón“. Afbrigðið hefur til þessa aðallega greinst í ríkjum í syðsta hluta Afríku og taka aðgerðir íslenskra stjórnvalda mið af því.
Til nýskilgreindra „hááhættusvæða“ teljast nú Afríkuríkin Botsvana, Esvatíní, Lesótó, Mósambík, Namibía, Simbabve og Suður-Afríka. Allir sem koma til landsins og hafa dvalið meira en sólarhring í þessum ríkjum 14 daga fyrir komuna til Íslands þurfa að fara í PCR-próf við komuna og svo í sóttkví, sem lýkur með öðru PCR-prófi fimm dögum síðar.
„Þetta gildir um alla sem dvalið hafa á hááhættusvæði, hvort sem þeir eru bólusettir eða ekki eða með sögu um fyrri sýkingu af Covid-19. Þessir einstaklingar þurfa jafnframt að framvísa neikvæðu Covid-prófi við byrðingu erlendis fyrir komuna til Íslands (þó að undanskildum þeim sem eru með tengsl við Ísland). Enn fremur ber þeim að fylla út rafrænt forskráningareyðublað þar sem m.a. kemur fram hvar þau hyggjast dvelja í sóttkví á Íslandi,“ segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins, en reglugerð sem Svandís Svavarsdóttir hefur undirritað um þetta efni tekur gildi á morgun, sunnudag.
Telja má líklegt að undirritun þessarar reglugerðar verði síðasta embættisverkið sem Svandís Svavarsdóttir sinnir sem heilbrigðisráðherra, en samkvæmt heimildum Kjarnans mun heilbrigðisráðuneytið verða í höndum Framsóknarflokksins á þessu kjörtímabili.
Auk breyttrar reglugerðar hefur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir jafnframt gefið út tilmæli þar sem Íslendingar eru hvattir til að ferðast ekki til þessara landa, óháð bólusetningarstöðu eða sögu um fyrri sýkingu af völdum Covid-19.
Virðist dreifast mun hraðar en Delta
Grunur er um að þetta nýja afbrigði veirunnar hafi þegar náð að skjóta einhverjum rótum í Evrópuríkjum. Tvö smit þessa afbrigðis hafa greinst í Bretlandi, samkvæmt blaðamannafundi forsætisráðherrans Borisar Johnsons í dag, og afbrigðið hefur auk þess greinst í Belgíu.
Auk þess er grunur um að Ómíkrón-afbrigðið hafi greinst í Þýskalandi, Hollandi og Tékklandi, hið minnsta, samkvæmt fréttum evrópskra miðla í dag.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að „miklar áhyggjur“ hafi vaknað í alþjóðasamfélaginu um að „hér geti verið komið fram nýtt og stökkbreytt afbrigði SARS-CoV-2 sem hefur aukna smithæfni, veldur hugsanlega alvarlegri sýkingu og kemst undan verndandi áhrifum bóluefna og fyrri sýkinga af völdum COVID-19. Þetta á hins vegar eftir að staðfesta frekar. Afbrigðið virðist dreifast mun hraðar en Delta-afbrigðið gerir.“
Sóttvarnalæknir segir þó að vonandi verði hægt að endurskoða aðgerðir á landamærum sem fyrst, „þegar gleggri niðurstöður fást varðandi þá hættu sem af ofangreindu afbrigði stafar.“
„Þess ber þó að geta að einnig gæti þurft að herða aðgerðir, allt eftir hvernig upplýsingum og rannsóknum varðandi Omicronafbrigðið vindur fram,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.