Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, ætlar ekki að greiða atkvæða um þær tillögur sem fram eru komnar um staðfestingu kjörbréfa. Hann segist hafa komist að þeirri niðurstöðu „að Sigmar Guðmundsson sé nokkurn veginn síðasti maður á landinu sem á að skera úr um gildi þess hvort Sigmar Guðmundsson skuli sitja á Alþingi.“
Sigmar er nefnilega, sem jöfnunarmaður í Suðvesturkjördæmi, einn þeirra sextán þingmanna sem ef til vill gætu þurft að kveðja Alþingi eftir að hafa fengið kjörbréf í hendur ef gripið yrði til þess ráðs að ógilda kosningarnar í Norðvesturkjördæmi og fyrstur þeirra til að gera grein fyrir því hvernig atkvæði hans í þinginu verði háttað.
Hann sagðist þó ekki gera neina kröfu um að aðrir þingmenn sem upplifi sig í sömu skrítnu stöðu sitji hjá við atkvæðagreiðsluna, sem væntanlega fer fram í kvöld.
Áður en Sigmar steig í ræðustól hafði samflokkskona hans Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir greint frá því að hún ætlaði sér að greiða atkvæði með tillögu sem felur í sér uppkosningu í Norðvesturkjördæmi, af þeirri ástæðu að ekki væri hægt að sannreyna að ágallar við framkvæmd kosningarinnar í Norðvesturkjördæmi hefðu ekki haft áhrif á úrslit kosninganna.
Varaþingmaður með breytingartillögu
Þingmenn koma nú einn af öðrum í ræðustól og gera grein fyrir því hvernig atkvæði þeirra muni lenda í málinu. Breytingartillaga við álit kjörbréfanefndar hefur verið sett fram af hálfu Indriða Inga Stefánssonar, varaþingmanns Pírata, sem felur í sér að „fyrsta talningin“ í Borgarnesi verði látin gilda.
Í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag sagði Indriði að hann teldi réttara að þær tölur gildi, ef svo færi að einhverjar tölur úr Norðvesturkjördæmi ættu að vera taldar gild úrslit alþingiskosninga í kjördæminu.