Það voru ekki bara fulltrúar Samherja og Nesfisks sem lentu í vandræðum með atkvæðagreiðslukerfið í stjórnarkjöri á aðalfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem fram fór rafrænt síðasta föstudag. Fulltrúar Síldarvinnslunnar í Neskaupstað lentu einnig í því að gera mistök í atkvæðagreiðslunni, en sluppu með skrekkinn, ef svo má segja, þar sem í kjölfarið á því að atkvæðum Síldarvinnslunnar var ekki ráðstafað samþykkti aukinn meirihluti á fundinum tillögu um að greiða atkvæði á ný.
Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar staðfestir þetta við Kjarnann, en hann segir að þeir sem sátu rafræna aðalfundinn fyrir hönd Síldarvinnslunnar hafi gert einhver mistök í atkvæðagreiðslunni, sem sé ef til vill eðlilegt enda sé ekki reynsla af rafrænum kosningum sem þessum hjá samtökunum. Í kjölfarið hafi tillaga um að kjósa aftur, sem Gunnþór sjálfur man ekki hver bar upp, verið samþykkt með auknum meirihluta atkvæða.
Þegar svo kosið var aftur áttu sér stað einhverjir tæknilegir örðugleikar hjá bæði Samherja og Nesfiski, en eins og Kjarninn sagði frá í gær náðist ekki nægur stuðningur við að kjósa á ný til stjórnarinnar í kjölfar þess að þeim tókst ekki að ráðstafa atkvæðum sínum. Bæði fyrirtækin misstu stjórnarmann í hagsmunasamtökunum á aðalfundinum.
Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja sagði starfsmönnum fyrirtækisins frá því í tölvupósti síðdegis síðasta föstudag að tæp 60 prósent atkvæðabærra á fundinum hefðu stutt við tillögu frá Nesfiski um að atkvæðagreiðslan yrði endurtekin í kjölfar þess að eitthvað fór tæknilega úrskeiðis hjá Samherja og Nesfiski, en það dugði ekki til, þar sem 75 prósent atkvæðabærra hefðu þurft að samþykkja slíka tillögu.
Gunnþór tók ekki mikla afstöðu til spurningar blaðamanns um hvort ekki verið drengilegt að leyfa Nesfiski og Samherja að koma sínum atkvæðum að í stjórnarkjörinu, í ljósi þess að fyrirtækjunum gekk ekki að ráðstafa þeim.
Hann kom því hins vegar á framfæri að það væri af og frá að leggja þannig út frá niðurstöðu stjórnarkjörsins að fulltrúa Samherja hefði verið varpað úr stjórninni af öðrum félögum í sjávarútvegi af einhverjum sökum, enda sé það nú svo að atkvæðamagn Samherja eigi að duga fyrir 1,6 stjórnarmönnum í 18 manna stjórn SFS. Ef atkvæðin rata rétta leið.
Starfsfólk SFS hafi harmað brotthvarf stjórnarmanns Samherja
Hákon Þröstur Guðmundsson útgerðarstjóri Samherja hafði verið fulltrúi fyrirtækisins í stjórn SFS þar til á föstudag. Í tölvupósti Kristjáns Vilhelmssonar til starfsmanna Samherja síðastliðinn föstudag sagði að starfsfólk SFS hefði þá þegar haft samband til þess að „lýsa yfir vonbrigðum með að missa frábæran stjórnarmann og ekki síður „upp fletti rit“ sem virðist vera alls staðar inni og sérlega ráðagóður.“
Fram kom í frétt á vef mbl.is síðasta föstudag, og vísað til svars frá upplýsingafulltrúa SFS, að vandræði einstaka fyrirtækja við að ráðstafa atkvæðum sínum hefðu ekki snúið að tæknilegri framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Kjarninn hefur falast eftir því að fá nánari útskýringar um þetta frá Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur framkvæmdastjóra samtakanna, en ekki hefur verið brugðist við beiðnum þar að lútandi.
Formaður telur „nokkuð dapurlegt“ að fylgjast með umræðu um fiskeldi
Ólafur Marteinsson framkvæmdastjóri Ramma hf. var á fundinum á föstudag endurkjörinn formaður stjórnar SFS, en hann tók við formennsku af Jens Garðari Helgasyni á aðalfundi í fyrra. Ein kona er í 18 manna stjórn hagsmunasamtakanna þetta starfsárið.
Í ársskýrslu SFS er að finna ávarp formanns þar sem Ólafur fer yfir liðið ár í sjávarútvegi. Þar segir að árið 2020 hafi verið umfram venju viðburðaríkt, greinin hefði lent í mótbyr, staðið hann af sér og skilað sínu til samfélagsins. Í ávarpinu sagði formaðurinn þó „nokkuð dapurlegt“ að fiskeldið hér á landi, „ein fárra útflutningsatvinnugreina sem var í vexti í fyrra, skuli þurfa að sæta mikilli ágjöf misviturra álitsgjafa.“
„Það er bæði skiljanlegt og eðlilegt að fólk hafi á því skiptar skoðanir. En við eigum ekki að láta tilfinningarnar stjórna umræðunni að öllu leyti. Það er eins varlega farið í fiskeldi á Íslandi og kostur er og ekki má gleyma því að stór hluti strandlengjunnar er lokaður fyrir fiskeldi. Fiskeldi er mikilvægt, ekki síst í þeim sveitarfélögum þar sem það er staðsett. Það er einnig mikilvægt fyrir þjóðarhag og nemur nú um 10 prósentum af útflutningi sjávarafurða. Það er vel og vonandi mun gæta meiri sanngirni í umræðu um eldið á komandi árum,“ segir í ávarpi Ólafs.
Í ávarpinu sagði Ólafur einnig að hann teldi greinina hafa staðið sig vel í að mæta áhrifum kórónuveirufaraldursins, en ætti þó ekki skilið einhverjar sérstakar þakkir fyrir að standa vaktina á erfiðum tíma. Það hefðu fleiri gert.
„En vissulega væri tilbreyting í því að talsmenn þjóðarinnar hefðu kjark til þess að tala um það sem vel er gert á vettvangi sjávarútvegs og eldis. Á því verður þó væntanlega einhver bið,“ sagði formaðurinn í ávarpi sínu.