Aðeins fjórtán prósent þeirra bóluefnaskammta sem ríkari þjóðir heims hétu að láta af hendi hafa skilað sér til fátækari ríkja. Það hefur ekki staðið á loforðunum. Til að jafna aðgengi allra að bóluefni, heimsbyggðinni allri til heilla, hafa auðugri ríki heitið því að koma samanlagt 1,8 milljörðum skammta til fátækari ríkja. Enn sem komið er hafa aðeins 261 milljón skammta skilað sér, að því er fram kemur í nýrri skýrslu People’s Vaccine Alliance, samtaka sem Oxfam, ActionAid og Amnesty International standa m.a. að. Nú fer að líða að því að ár sé liðið frá því að fyrstu bóluefnin gegn COVID-19 komu á markað. 37 prósent jarðarbúa teljast fullbólusett en þó hefur aðeins 1,3 prósent fólks í fátækustu löndum heims verið bólusett að fullu.
Bretland lofaði 100 milljónum skammta en aðeins 9,6 milljónir eru komnir á áfangastað, segir í skýrslunni, eða innan við 10 prósent. Kanada hefur afhent 8 prósent af þeim 40 milljón skömmtum sem stjórnvöld lofuðu. Bandaríkin hafa staðið sig betur og um 16 prósent af þeim 1,1 milljarði skammta sem stjórnvöld lofuðu fátækari ríkjum hafa þegar komist á leiðarenda.
Helstu bóluefnaframleiðendur heims hétu því að setja samtals 994 milljónir skammta inn í COVAX-samstarfið. Frá Johnson & Johnson, Moderna, AstraZeneca og Pfizer hafa þó aðeins 120 milljónir skammta, 12 prósent af því sem lofað var, skilað sér.
Robbie Silverman, sem starfar hjá Oxfam segir að niðurstöður skýrslunnar sýni að ríkari löndin hafi brugðist. Sú leið sem COVAX fór hafi einnig brugðist. „Eina leiðin til að stöðva faraldurinn er að deila tækni og þekkingu með öðrum framleiðendum svo að allir, hvar sem þeir búa, hafi aðgang að hinum lífsnauðsynlegu bóluefnum.“
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að koma miklu magni bóluefna til fátækari ríkja fyrir árslok. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni eru ríkin sem hafa heitið bóluefnunum hins vegar flest að vinna samkvæmt eigin áætlunum sem miði við afhendingar einhvern tímann á næsta ári. Þær tafir munu, að því er segir í skýrslunni, valda ónauðsynlegu mannfalli.
„Heilbrigðisstarfsmenn eru að deyja og börn að missa foreldra sína og afa og ömmu,“ segir Maaza Seyoum, einn af fulltrúum Afríku í People’s Vaccine Alliance. „Enn á eftir að bólusetja um 99% af fólki í fátækari ríkjum og við höfum fengið nóg af þessum loforðum sem standast svo ekki.
Fleiri aðilar hafa bent á nauðsyn þess að hægt verði að framleiða bóluefni víðar í heiminum. Bæði stjórnvöld á Indlandi og í Suður-Afríku hafa skorað á Alþjóða viðskiptastofnunina (WTO) að beita sér í málinu og aflétta kröfum um einkaleyfi á bóluefni og lyf gegn COVID-19. Yfir hundrað ríki og mannréttindasamtök hafa tekið undir áskorunina sem myndi þýða að meira yrði framleitt af bóluefnum. Sem er það sem þarf.
En stjórnvöld í Bretlandi, Sviss og Evrópusambandið eru meðal þeirra sem eru þessari leið mótfallin.
Guardian hefur eftir Tim Bierley, sem starfar með mannréttindasamtökunum Global Justice Now, að þessir aðilar standi í vegi fyrir því að framboð á bóluefnum aukist og viðhaldi þannig því ástandi að fátækari ríki séu háð þeim auðugri um framleiðslu og dreifingu bóluefnanna.
Talsmenn bresku ríkisstjórnarinnar segja að Bretland sé „stolt af því“ að leika lykilhlutverk í því verkefni að búa til og dreifa bóluefnum gegn COVID-19. Stjórnvöld vilji „raunsæjar“ lausnir, m.a. að styðja áfram COVAX-samstarfið og finna leiðir til að leysa flöskuhálsa í framleiðsluferlinu öllu.