Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar var gestur Forystusætisins á RÚV í gærkvöldi og ræddi þar meðal annars um skattastefnuna sem flokkurinn hefur lagt fram í kosningabaráttu sinni undanfarnar vikur. Samfylkingin hefur talað fyrir stóreignaskatti á þá sem eiga yfir 200 milljónir króna í hreina eign og Logi var spurður um röksemdirnar fyrir slíkri skattlagningu.
„Okkar rannsóknir sýna að efsta 1 prósent lag samfélagsins, ríkasta 1 prósent þjóðarinnar, hefur verið að borga minna og minna í skatt undanfarin 20 ár og borgar minna en allur almenningur í landinu, allur fjöldinn. Okkur finnst það réttlætismál að jafna þetta og að allir leggi af mörkum,“ sagði Logi í viðtalinu og bætti því við að flokkurinn teldi hærri skatta á miklar eignir geta haft jákvæð hagræn áhrif.
En stenst þessi fullyrðing formanns Samfylkingarinnar skoðun?
Þegar horft er til teknanna sem ríkissjóður hefur af einstaklingi sem tilheyrir efsta eina prósentinu hvað tekjur varðar er morgunljóst að sá aðili greiðir fleiri krónur í ríkissjóð en meðalmaðurinn í íslensku samfélagi, enda innkoman margföld á við meðalmanninn. Einstaklingur sem tilheyrir ríkasta eina prósentinu greiðir því meira til samfélagsins í krónum talið en meðalmaður í samfélaginu, einhver sem tilheyrir „öllum fjöldanum“ sem Logi vísaði til.
Það sem Logi var þó án vafa að ræða um er hlutfallsleg skattbyrði ríkasta 1 prósentsins í íslensku samfélagi, en eins og hefur verið bent á ítrekað á undanförnum árum hafa breytingar á skattkerfinu, þá helst afnám auðlegðarskattsins, valdið því að skattbyrði tekjuhæsta 1 prósentsins hefur farið lækkandi.
Breytingarnar sem gerðar hafa verið á því hvernig þeir allra ríkustu í íslensku samfélagi eru skattlagðir hefur valdið því að skattbyrði þeirra allra tekjuhæstu lækkar eftir því sem tekjur þeirra aukast – og í nýlegri skýrslu frá ASÍ er því haldið til haga að þetta sé andstætt markmiði framsækinna skattkerfa, sem byggja á því að skattbyrðin hækki eftir því sem tekjur aukast.
Í skattkerfinu eins og það er uppbyggt í dag fer skattbyrðin hækkandi með auknum tekjum allt þar til ákveðnu marki er náð og komið er alveg í efstu tekjuhópana. Þá sveigir kúrfa skattbyrðinnar af leið og í stað þess að fara hækkandi með auknum tekjum greiða þeir sem eru á toppi tekjustigans hlutfallslega lægri skatta en þeir sem koma næstir á eftir þeim – og hlutfallslega raunar ekkert svo mikið meira en Íslendingar allir að meðaltali.
Þeir allra tekjuhæstu fá hærra hlutfall fjármagnstekna
Í umfjöllun Páls Kolbeins rekstrarhagfræðings um álagningu Íslendinga á árinu 2019, sem birtist í Tíund fréttablaði Skattsins fyrr á þessu ári, segir að tekjuhæsta eitt prósent landsmanna hafi greitt 37 milljarða króna í skatta og að meðalskattbyrði hópsins hafi verið 26 prósent.
Skattbyrði þessara rúmlega þrjú þúsund einstaklinga var því aðeins meiri en meðalskattbyrði allra Íslendinga á árinu 2019 – sem var 23 prósent að teknu tilliti til bóta – og sömuleiðis ögn meiri en skattbyrði tekjuhærri helmings landsmanna, sem var 25,5 prósent.
Hún var þó minni en t.d. næsta prósents fyrir neðan það í tekjustiganum, sem greiddi 27,2 prósent tekna sinna í skatta og langt undir meðalskattbyrði tíu prósent ríkustu Íslendinganna, sem greiddu 35,2 prósent tekna sinna í skatta. Alls greiddu tekjuhæstu fimm prósentin síðan 27,9 prósent í skatt af tekjum sínum, eða hlutfallslega nokkuð meira en tekjuhæsta prósentið.
Í umfjöllun Páls í Tíund segir að ástæða þess að skattbyrði tekjuhæsta eina prósents landsmanna hafi verið lægri en skattbyrði tekjuhæstu fimm prósentanna sé sú að fjármagnstekjur vegi þyngra í tekjum þeirra sem eru tekjuhærri á hverjum tíma.
Skattur af fjármagnstekjum er 22 prósent en staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars af launum, lífeyri og tryggingabótum yfir 11.125 þúsund krónum á ári er 46,24 prósent.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Ríkasta 1 prósent landsmanna greiðir meira af tekjum sínum í skatta en meðalmaðurinn í íslensku samfélagi – „almenningur“ og „allur fjöldinn“ – sem Logi hlýtur að hafa verið að vísa til með orðum sínum. Það er hins vegar rétt hjá Loga að á undanförnum áratug hefur skattbyrði þeirra sem hæstar tekjur hafa farið lækkandi.
Það eina prósent landsmanna sem mestar tekjur hafði árið 2019 greiddi svo einungis um hálfu prósentustigi meira af tekjum sínum en þeir sem voru í tekjuhærri 50 prósentunum gerðu að meðaltali og um þremur prósentustigum meira en íslenskur almenningur að meðaltali gerði heilt yfir.
Að þessu sögðu er það mat Staðreyndavaktarinnar að Logi Einarsson hafi sett fram hálfsannleik er hann fullyrti í Forystusætinu að ríkasta eina prósentið væri að greiða „minna en allur almenningur í landinu, allur fjöldinn,“ í skatta af tekjum sínum.