Evrópumóti kvennalandsliða í knattspyrnu lýkur með úrslitaleik Englands og Þýskalands á Wembley í kvöld, þegar þær ensku munu gera sitt besta til að koma loks með fótboltann heim til Englands, líkt og sungið er um í aðalstuðningssöng ensku knattspyrnulandsliðanna. Um er að ræða fordæmalausan áhuga á Evrópumóti kvennalandsliða, og ekki síst á enska kvennalandsliðinu, enda fer mótið fram á Englandi og eygja heimamenn loks von um að koma fótboltanum heim eftir áratugalöng vonbrigði með árangur karlalandsliðsins.
Knattspyrnu kvenna hefur ekki aðeins vaxið fiskur um hrygg á Englandi, þó þar sé vöxturinn líklega mestur, heldur er knattspyrna kvenna á uppleið á alþjóðavísu.
Ekki er mjög langt síðan íslenskar stúlkur sem höfðu áhuga á að iðka knattspyrnu þurftu að æfa og spila með drengjum, og var það enn raunin þegar nokkrir núverandi leikmenn íslenska kvennalandsliðsins voru að taka sín fyrstu spörk.
Þá hefur áhorfendum einnig farið fjölgandi, en til að taka annað danskt dæmi lék danska kvennalandsliðið í fyrsta sinn á Parken í Kaupmannahöfn í vináttulandsleik gegn Brasiíu í upphitun fyrir Evrópumótið og fyllti rúmlega 20.000 sæti. Fram að því hafði kvennalandsliðið ávallt leikið í Viborg á Jótlandi. Margir Danir hafa nú kallað eftir því að Parken verði aðalleikvangur liðsins.
Sögulegt Evrópumót
En aftur að Evrópumótinu, þar sem hvert áhorfendametið á fætur öðru hefur verið slegið. Fyrsta metið var slegið í upphafsleik mótsins þar sem heimakonur frá Englandi mættu Austurríki á Old Trafford í Manchester. Áhorfendur á þeim leik töldu rúmlega 68 þúsund manns, sem sló auðveldlega fyrra met sem náðist þegar rúmlega 41 þúsund manns horfðu á úrslitaleik Þýskalands og Noregs á Evrópumótinu í Svíþjóð árið 2013. Þegar litið er til þess að um var að ræða fyrsta leik lokamóts til samanburðar við úrslitaleik er afrekið enn merkilegra.
Þegar litið er til heildarfjölda áhorfenda, þar sem fyrra met stóð í 240 þúsund áhorfendum á Evrópumótinu 2017, hafði metið þegar verið slegið um miðja riðlakeppnina og stóð í 357.993 í lok hennar. Áhorfendatölur þegar aðeins úrslitaleikurinn er eftir standa nú í 487,683, og hefur áhorfendafjöldi því verið tvöfaldaður frá síðasta meti. Wembley tekur 87 þúsund í sæti og takist að fylla leikvanginn í kvöld verður um að ræða áhorfendamet á leik í lokakeppni Evrópumóts, líka þegar keppni karlalandsliða er tekin með. Núverandi met var slegið í úrslitaleik Spánar og Sóvétríkjanna á Evrópumóti karlalandsliða árið 1964 þegar 79.115 áhorfendur mættu á völlinn.
En áhuginn á vellinum hefur ekki aðeins stóraukist heldur einnig utan vallar, nánar tiltekið á sjónvarpsskjánum. Fjöldi áhorfsmeta hefur verið sleginn og náði hlutfall svokallaðra hlutlausra sjónvarpsáhorfenda, sem ekki halda sérstaklega með öðru hvoru liðinu, í fyrsta sinn yfir fimmtíu prósentum, sem EUFA segir merki um að aukinn áhuga meðal almennings.
Ljóst er að knattspyrna kvenna er á hraðri uppleið, og ekki seinna vænna. Með aukinni áherslu eflist íþróttin og með því eykst áhuginn, sem skapar svo hvata til enn meiri áherslu og áhuga, og þar fram eftir götunum.