Þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna skógarelda og hundruð látist í hitabylgjunni sem nú gengur yfir í suðurhluta Evrópu. Ástandið hefur verið hvað verst í mið-Evrópu, svo sem á Spáni og í Frakklandi og Portúgal, þar sem skógareldar geisa víða, auk þess sem Ítalir glíma við versta þurrk í landinu í 70 ár. Í öllum þessum löndum hafa hitatölur farið vel yfir 40 stig og mældist mest 49 stigum í Sevilla á Spáni.
Nú um helgina færist hitabylgjan til norðurs og austurs, og hefur neyðarástandi verið lýst yfir í Bretlandi vegna rauðrar hitaviðvörunar í fyrsta sinn. Þar er talið að hitinn nái hámarki á mánudag og þriðjudag og hafa Bretar verið hvattir til þess að undirbúa sig vel og vera helst ekki á ferðinni, því búast megi við talsverðum töfum á lestarsamgöngum, en lestar munu þurfa að aka hægar en ella og ráðgert er að eldar muni setja strik í reikninginn á einhverjum leiðum, auk þess sem saltbílar hafa víða verið sendir á götur út til þess að dreifa sandi, í stað salts, í tilraun til þess að koma í veg fyrir að malbik bráðni í hitanum.
Talið er að hiti í Bretlandi geti farið yfir 40 stig á sumum stöðum, þar á meðal í London. Þá má búast við því að hitabylgjan teygi sig til Belgíu og Hollands, auk þess sem angar hennar munu hafa einhver áhrif í Danmörku og í Svíþjóð, þó ekki sé búist við að hiti þar fari yfir 30 stig.
Skógareldar hafa þegar brennt stærra landsvæði í Portúgal en allt árið í fyrra, og þurrkar á Ítalíu gætu leitt til skorts á ólívuolíu, risottohrísgrjónum og pasta. Vísindamenn vara við því að þetta sé aðeins byrjunin og að þurrkar og öfgar í veðri eigi eftir að versna vegna loftslagsvárinnar.