Vel á annað hundrað smit greindust innanlands í gær, eða alls 144 samkvæmt tölum á vefnum Covid.is. Tala má um sprengingu í smitum á Akranesi, þar greindust 50 smitaðir í gær og hefur bæjarráð Akraness ákveðið að fella niður alla starfsemi í skólum, tónlistarskóla og frístundastarfi bæjarins á morgun, segir í frétt Skagafrétta um málið.
Fimm eru á gjörgæslu með sjúkdóminn, fjórir á Landspítala og einn á Akureyri. Þrír þessara sjúklinga eru í öndunarvél og einn í hjarta- og lungnavél. Meirihluti þeirra sem liggur á gjörgæslu Landspítalans nú er bólusettur. Yngsti sjúklingurinn er á fertugsaldri og sá elsti um sextugt.
Tólf COVID-sjúklingar liggja á smitsjúkdómadeild Landspítalans og er um helmingur þeirra óbólusettur.
Samkvæmt því sem Kjarninn kemst næst greindust um 130 fullorðnir með veiruna í sýnatökum gærdagsins, aðallega ungt fólk og að auki um tuttugu börn. Eitt barn liggur á Landspítalanum með COVID-19.
Síðustu daga hefur smitfjöldi aukist hratt hér á landi. Í fyrradag greindist 91 innanlands. Frá 1. október og þar til í fyrradag höfðu 1.932 greinst með veiruna. .
Fréttin hefur verið uppfærð.