Er öllum takmörkunum vegna COVID-19 var aflétt hér á landi í sumar kom berlega í ljós að þrátt fyrir útbreidda bólusetningu getur fjöldi alvarlegra veikra, fullbólusettra sem óbólusettra, orðið það mikill að alvarlegt ástand skapist á sjúkrahúsum landsins. Vísbendingar um svipaða þróun má nú sjá í Danmörku, þar sem smitum og innlögnum hefur fjölgað frá því að öllum takmarkandi aðgerðum var aflétt í byrjun september og á Englandi þar sem flestu var aflétt um mitt sumar.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegu minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra. Í því fjallaði hann um þrjá kosti sem stjórnvöld stæðu nú frammi fyrir varðandi sóttvarnaaðgerðir innanlands. Ríkisstjórnin ákvað í morgun að aflétta þegar á miðnætti takmarkandi aðgerðum að mestu og stefnir á að þeim öllum verði aflétt eftir mánuð.
Í minnisblaði sínu fer Þórólfur m.a. yfir stöðuna á faraldrinum í nágrannalöndunum.
Danmörk
Í Danmörku er þátttaka í bólusetningum svipuð og á Íslandi. Þar var öllum takmarkandi aðgerðum aflétt í byrjun september vegna góðrar stöðu faraldursins og útbreiddrar þátttöku í bólusetningum. Fyrstu tvær vikurnar eftir afléttingu fækkaði daglegum fjölda tilfella en frá 22. september hefur smitum fjölgað á ný úr rúmlega 300 upp í 700-800 á dag. „Fjöldi innlagna á sjúkrahús hefur hins vegar verið nokkuð stöðugur en síðustu dagana hefur þeim fjölgað nokkuð,“ skrifar Þórólfur.
Í Danmörku eru tekin mörg sýni daglega (PCR) fyrir COVID-19 og er fjöldinn sambærilegur þeim fjölda sem tekinn er á Íslandi. „Á þessari stundu er því ekki hægt að segja með vissu hver endanlegur árangur af afléttingum verður.“
Noregur
Í Noregi var öllum takmörkunum innanlands vegna COVID-19 aflétt 25. september í ljósi góðrar stöðu faraldursins og útbreiddrar bólusetningar. Frá þeim tíma hefur ekki orðið vart aukningar á fjölda daglegra tilfella eða innlagna á sjúkrahús, skrifar Þórólfur. Talsvert færri sýni eru tekin hlutfallslega í Noregi á degi hverjum en á Íslandi og í Danmörku.
„Tíminn á því eftir að leiða í ljós hvort aukning verður þar í fjölda smita og innlagna því a.m.k. 2-3 vikur geta liðið frá afléttingu aðgerða þar til breytinga á fjölda smita verður vart.“
Svíþjóð
Í Svíþjóð var svo til öllum takmörkunum innanlands vegna COVID-19 aflétt 29. september og munu frekari tilslakanir taka gildi 1. nóvember. Á þeim rúmlega tveimur vikum sem liðnar eru frá því að takmörkunum var aflétt hefur ekki orðið vart aukningar á daglegum fjölda smita né innlagna á sjúkrahús vegna COVID-19.
Þórólfur bendir á að þátttaka í bólusetningu í Svíþjóð gegn COVID-19 sé heldur minni en á Íslandi en líklegt er að fleiri hafi smitast fyrr í í faraldrinum í Svíþjóð og „betra náttúrulegt ónæmi sé því í sænsku samfélagi. Afleiðingar af afléttingu aðgerða eru þannig ekki að fullu komnar fram þar sem að einungis rúmlega tvær vikur eru liðnar frá afléttingu þeirra.“
Finnland
Í Finnlandi eru enn töluverðar samfélagslegar takmarkanir í gangi vegna COVID-19 en stefnt er að afléttingu allra takmarkana þegar þátttaka í bólusetningu hefur náð 80 prósentum. Þar hefur daglegum fjölda tilfella fjölgað talsvert síðastliðnar þrjár vikur eða frá rúmlega 300 upp í rúmlega 600 án þess að fleiri hafi þurft að leggjast inn á sjúkrahús.
England
Í Englandi var mörgum samfélagslegum takmörkunum aflétt í júlí. Þar hefur náðst að full bólusetja um 78 prósent allra 12 ára og eldri en þrátt fyrir það hefur greindum smitum fjölgað umtalsvert undanfarnar vikur þótt færri sýni séu tekin á hverjum degi. Einnig hefur innlögnum á sjúkrahús fjölgað sem og dauðsföllum af völdum COVID-19.
Ekkert fulbólusett barn greinst með COVID-19
Í dag hafa um 75 prósent fólks á Íslandi verið fullbólusett og um 90 prósent allra 12 ára og eldri. Um 70 prósent barna á aldrinum 12-15 ára hafa fengið að minnsta kosti eina sprautu bóluefnis og um 65 prósent verið fullbólusett.
Af þeim 5.800 einstaklingum sem greinst hafa með COVID-19 í bylgjunni sem hófst í byrjun júlí voru 58 prósent fullbólusett. Sóttvarnalæknir bendir í minnisblaði sínu á að þetta hlutfall hafi lækkað síðustu vikurnar og það sem af er október voru 42 prósent nýgreindra fullbólusett, 57 prósent óbólusett og 1 prósent hálfbólusett. Ekkert fullbólusett barn á aldrinum 12-15 ára hefur greinst með sjúkdóminn.
„Við samanburð á hlutfalli smita meðal óbólusettra og bólusettra þá kemur í ljós að líkur á smiti hjá óbólusettum eru þrefalt meiri en hjá bólusettum og líkur á innlögn á sjúkrahús eru fimm sinnum hærri,“ skrifar Þórólfur í ítarlegri samantekt sinni. Þá séu vísbendingar um að veikindi séu að öllu jöfnu vægari hjá bólusettum.
Þó að tekist hafi að fullbólusetja 75 prósent landsmanna og tæplega 90 prósent allra 12 ára og eldri, þá er, að mati Þórólfs, ekki hægt að segja að ónæmi í samfélaginu gegn kórónuveirunni sé orðið það mikið að lítil sem engin hætta sé á útbreiddu smiti. „Þar sem að engin merki eru um að COVID-19 sé að hverfa úr heiminum þá verður það mikil áskorun fyrir íslensk stjórnvöld á komandi misserum að takast á við COVID-19 án þess að skerða réttindi almennings ekki um of.“