Nú í vikunni hefur kalt heimskautaloft lagt leið sína yfir Brasilíu og með því hefur snjór tekið að falla í landinu. Fönnin lagðist yfir götur og bíla í landinu og fólk tók upp á því að leika sér í snjónum og búa til snjókarla. Frá þessu er greint í frétt Reuters.
Vitnað er í sjónvarpsviðtal við flutningabílstjórann Iodor Goncalves Marques í frétt Reuters en honum fannst snjórinn einkar fagur. „Ég er 62 ára gamall og ég hef aldrei séð snjó áður. Að sjá slíka náttúrufegurð er alveg ólýsanlegt,“ sagði Marques. Íbúar í fleiri en 40 borgum í syðsta héraði landsins, Rio Grande do Sul, þurftu að glíma við hálku og kulda en snjóföl varð vart í að minnsta kosti 33 þeirra.
Verð á hrávöru hefur hækkað vegna frostsins
Kuldakastið hefur þó einnig haft afdrifaríkari afleiðingar en hálku í för með sér, því hætta er á að frostið muni bitna á uppskeru bænda þar í landi. Landbúnaður er einn af máttarstólpum atvinnulífs í Brasilíu og hefur kuldinn til að mynda stefnt ræktun á kaffi, sykri og appelsínum í hættu. Verð á kaffi og sykri hefur til að mynda hækkað á hrávörumörkuðum í kjölfar kuldakastsins.
Íbúar á þeim svæðum þar sem snjórinn hefur fallið virðast í það minnsta vera ánægðir með snjókomuna. „Maður finnur varla fyrir kuldanum vegna þess að snjórinn er svo spennandi. Hann er dásamlegur, alveg hreint dásamlegur!“ er haft eftir Joselaine da Silva Marques í grein Reuters.